Húsið

Húsið er heillandi og sögufrægt kaupmannsheimili þar sem sögð er meira en 250 ára gömul saga verslunar og menningar.  Húsið var byggt 1765 og var mikið menningarsetur,  þangað bárust fjölbreyttir straumar og stefnur í listum og menningu. Þetta var á tímum þegar Eyrarbakki var ein mikilvægasta höfn og verslunarstaður landsins sem teygði veldi sitt alla leið austur að Lómagnúp.  

Miðlun í Húsinu dansar á mörkum þess að vera sýning eða endurgerð á heimilislífi kaupmannsfjölskyldu á 19. öld. Gestir fara um fínu stássstofuna þar sem merkilegt píanó stendur stolt, um hlýlegt eldhús þar sem alltaf er heitt á könnunni,  uppá loft inn í svefnherbergi dætra en á leiðinni er litla súðherbergið þar sem vinnukonur sváfu. Háaloftið með sitt brakandi gólf er sveipað ævintýraljóma en þar var vistavera fjósamanns og vikapilts.  Sjálf byggingin er stærsti og merkasti gripur safnsins og einstök á landsvísu. Meginþorri íbúa Eyrarbakka bjó í lágreistum torfbæjum þegar Húsið var byggt og þessi þá mikilfenglega timburbygging á tveimur hæðum með hanabjálkalofti tróndi yfir þorpinu.  

Í Assistentahúsinu sem er áfast Húsinu er annað andrúm á sýningum. Brot af því besta úr héraðinu öllu er til sýnis og má þar nefna einstakt herðasjal úr mannshári, kirkjugripir sem votta um mikið listfengi handverksfólks og ullarvogin sem hluti af verslunarsögu sýslunnar. Upp brattan stiga heimsækir safngesturinn sýningar um undurfagurt handverk kvenna og ferðalög Íslendinga vestur um haf. Þar er lögð sérstök áhersla á Vestur-Íslendinga sem settust að á Washington-eyju í Wisconsin. Einn viðkvæmasti gripur á sýningunni er kistuklæði með ísaumuðum þurrkuðu blómum frá Íslandi sem tjáir heimþrá og söknuð þess sem flutti yfir hafið. Sjón er sögu ríkari. 

 

Breytilegar sýningar eru haldnar í borðstofu Hússins þar sem sögu Árnessýslu er miðlað með margvíslegum hætti. Haldnar eru páska- og vorsýningar, sumarsýning og jólasýning. Safnið státar af miklu og ríkulegu viðburðahaldi.  

Nánar um sýningar og viðburði hér

 

Nánari fróðleik um Húsið og sögu þess er miðlað með bókinni Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson, safnstjóra og í leikinni heimildarmynd eftir Andrés Indriðason, Húsið á Eyrarbakka (DVD). Hvorutveggja má versla í litlu safnbúðinni okkar í Húsinu.  

Einnig má lesa um sögu Hússins, merka einstaklinga og sögu einstakra gripa undir í sérgreinum á heimasíðunni.