Sýningarhús

Sýningarhús Byggðasafns Árnesinga standa flest saman á litlu svæði í hjarta Eyrarbakka. Móttaka safnsins og stærsta sýningarrýmið er í Húsinu, heillandi og sögufrægu kaupmannsheimili þar sem sögð er meira en 200 ára gömul saga verslunar og menningar.  Umhverfis eru gömlu útihúsin og Eggjaskúrinn þar sem uppstoppaðir fuglar, egg og vísindi eru í sviðsljósinu. Sjóminjasafnið sem stendur örstutt frá Húsinu hýsir hið merka árskip Farsæl en sýningin þar hverfist um sjómennsku og mannlíf á öldum áður. Vestast á safnasvæðinu er litla alþýðuhúsið Kirkjubæ og þar er forvitnileg og fjölskylduvæn sýning um byltingartímana þegar rafljós kom í hús og fólk eignaðist útvarp og gúmmístígvél. Falin safnabygging á Eyrarbakka er Beitingaskúrinn í miðju þorpinu þétt við sjóvarnargarðinn.  Í skúrnum eru haldnir viðburðir og hann sýndur ef þess er óskað.  

Þuríðarbúð er tilgátuhús hlaðin úr torfi og grjóti og stendur inni í íbúðabyggð á Stokkseyri. Verbúðin gefur góða innsýn í aðstæður vermanna á 19. öld og er ætíð opin. 

Rjómabúið á Baugsstöðum má finna enn austar með ströndinni í næsta nágrenni við Knarrarósvita. Búið er eina rjómabú landsins sem stendur eftir með öllum búnaði og þess vegna einstök perla meðal safna.