Aðgengi að gripum

Stærsti hluti safnkosts Byggðasafns Árnesinga er skráður í gangagrunninn sarpur.is og mynd fylgir oftast gripi. Þannig getur hver og einn rýnt í safneignina rafrænt. Óski fólk eftir því að fá beint aðgengi að safngrip eða nánir upplýsingar um ákveðin safngrip er fyrsta skrefið að hringja eða senda okkur tölvupóst. Við finnum tíma til að taka á móti þér og verða við óskum þínum.  Skrifstofa safnsins er í varðveisluhúsi safnsins að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka.   

Sími: 483 1082 

tölvupóstur:  info@byggdasafn.is  

 

Nánar um skráningu safngripa  

Allir munir sem Byggðasafni Árnesinga eru gefnir eru skráðir eins nákvæmlega og unnt er. Skráning er mjög mikilvægur hluti af starfi safnsins. Vönduð skráning er ein mikilvægasta undirstaðan í öllu safnastarfi og er eins mikilvæg og söfnun, forvarsla og miðlun. Skráð er eftir skýrt afmörkuðum stöðlum.  Fram eiga að koma ýmis skráningaratriði og upplýsingar eins og komudagur, aldur, efni, stærð, gefandi, notandi, lýsing og ferill auk margs annars sem máli skiptir. Örugg skráning  tryggir varðveislu upplýsinga um gripina og opnar aðgengi að þeim til síðari tíma. Ef gripir hefðu ekki sögu eða fortíð væri gildi þeirra lítið sem ekkert. Skráningarkerfi eru mismunandi. Um 1992 hóf Byggðasafn Árnesinga að skrá muni í forritið File Maker Pro og var skráð í grunn eftir handskrifuðum aðfangabókum. Sú skráning var einungis aðgengileg starfsmönnum safnsins. Í dag skráir Byggðasafn Árnesinga í gagnagrunninn Sarp, eins og flestöll minjasöfn landsins. 

 

Tekið er á móti nýjum aðföngum eftir samþykktri söfnunarstefnu safnsins og í takt við stofnskrá safnsins. Sú vinnuregla gildir að við móttöku eru öll aðföng handskráð í sérstaka aðfangabók í safninu og á grunni þeirra upplýsinga síðar skráð í rafræna gagnagrunninn Sarp. Með tilkomu Sarps hefur mikil reynsla og samræming unnist og er stefnt að því að allt efni Sarps verði aðgengilegt á netinu og hjá helstu leitarvélum. Í gagnagrunninum Sarpi sem rekið er af flestum viðurkenndum söfnum landsins gefur að líta safnmuni og ljósmyndir Byggðasafns Árnesinga og Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka. Unnið er að myndvæðingu safnmuna og ljósmynda og mjakast það stóra verkefni smátt og smátt. Sjá nánar á heimasíðu Sarps:  sarpur.is Til að einangra leitina er valið úr flipa Byggðasafn Árnesinga/Sjóminjasafnið á Eyrarbakka og munir eða ljósmyndir eftir atvikum.