Stofnskrá fyrir Byggðasafn Árnesinga

1.gr. 

Safnið heitir Byggðasafn Árnesinga. Starfssvæði þess er Árnesþing. 

2.gr. 

Byggðasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga bs og hefur aðsetur á Eyrarbakka og rekur þar byggðasafn. Safninu er auk þess heimilt að vera með sýningar og aðra starfsemi á fleiri stöðum í Árnessýslu. 

3.gr. 

Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi. 

Leggja skal áherslu á söfnun og varðveislu muna, sem telja má einkennandi eða hafa sögulegt gildi fyrir Árnessýslu. Þessa muni skal kynna á sýningum safnsins. 

Byggðasafn Árnesinga skal að öðru leyti starfa samkvæmt ákvæðum Safnalaga nr. 141/2011 og Þjóðminjalaga nr. 140/2011 og reglugerðum og reglum sem grundvallast á þeim lögum. Safnið starfar eftir siðareglum ICOM alþjóðasamtaka safna og safnamanna. 

 

4.gr. 

Héraðsnefnd Árnesinga kýs þrjá menn í fagráð Byggðasafns Árnesinga og jafnmarga til vara á árlegum vorfundi sínum. 

Fagráð Byggðasafns Árnesinga heldur fundi eftir því sem þurfa þykir og ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála á fundum. Héraðsnefnd kýs formann fagráðsins en á fyrsta fundi nýkjörins ráðsins fer fram kjör varaformanns. 

 

5.gr. 

Fagráð Byggðasafns Árnesinga starfar í umboði Héraðsnefndar Árnesinga bs. Það hefur á hendi yfirstjórn byggðasafnsins, markar því stefnu sem endurskoða skal á fjögurra ára fresti og fer með öll mál er það varða. 

Fagráð byggðasafnsins semur og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlun safnsins fyrir ár hvert og fylgist með fjárhag þess og ráðstöfun fjár. Fjármál safnsins eru að öðru leyti á ábyrgð safnstjóra, sem annast um daglegan rekstur þess. 

Fagráðið sendir héraðsnefnd til afgreiðslu starfsáætlun og rökstudda beiðni um fjárframlag fyrir komandi starfsár í síðasta lagi 1. október ár hvert. Jafnframt skal fagráðið senda héraðsnefnd ársskýrslu og endurskoðaðan ársreikning liðins árs fyrir 1. mars ár hvert. Arður af starfsemi safnsins skal renna til þess sjálfs. 

Héraðsnefnd Árnesinga bs setur fagráðinu erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verkefni og starfshætti fagráðsins. 

 

6.gr. 

Fastar tekjur byggðasafnsins eru árlegt framlag Héraðsnefndar Árnesinga bs. Aðrar tekjur eru styrkir sem sótt er um, t. a. m. til Safnasjóðs, sbr. 22. gr. Safnalaga nr. 141/2011. 

Heimilt er að afla annarra tekna með gjöldum fyrir veitta þjónustu og aðgangi að sýningum safnsins. 

Byggðasafnið má eigi taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. 

 

7.gr. 

Safnstjóri starfar í umboði fagráðs sem forstöðumaður byggðasafnsins og situr fagráðsfundi. Fagráðið ræður safnstjóra til fimm ára í senn og ákveður starfssvið hans. Ráðningarkjör skulu ákvörðuð af framkvæmdaráði Héraðsnefndar. Hann skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safna. 

Safnstjóri skal starfa samkvæmt starfslýsingu sem fagráð safnsins semur og samþykkir. 

Safnstjóri ræður annað starfsfólk safnsins að fengnu samþykki fagráðs og í samræmi við samþykkta starfs- og fjárhagsáætlun safnsins. 

 

8.gr. 

Alla muni byggðasafnsins skal merkja og skrá og varðveita á svo tryggan hátt sem unnt er. Heimilt er safnstjóra að lána gripi til sýningar með samþykki fagráðs safnsins, en þó eigi til útlanda nema með samþykki menntamálaráðherra. 

Hvorki má gefa né selja þá muni sem safnið hefur eignast nema með samþykki fagráðs þess. 

 

9.gr. 

Byggðasafnið á Eyrarbakka og aðrar sýningar, sem safnið á eða rekur í samvinnu við aðra aðila, skulu vera opnar almenningi á tilteknum tímum og eigi skemur en þrjá mánuði á ári. 

Safnið og starfsemi þess skal kynnt nemendum í grunnskólum í samráði við skóla- og fræðsluyfirvöld, ýmist í safninu sjálfu eða skólum. 

10.gr. 

Byggðasafni Árnesinga er heimilt að eiga hlut í, taka að sér og annast rekstur og umsjón með söfnum í eigu annarra aðila en Héraðsnefndar Árnesinga bs. Slík söfn skulu þó falla að hlutverki byggðasafnsins skv. 3. gr. og gera skal sérstaka rekstrarsamninga milli aðila þar að lútandi þar sem fjárhagsgrundvöllur slíks samrekstrar er tryggður. 

 

11.gr. 

Stofnskrá þessi er samþykkt af Héraðsnefnd Árnesinga skv. ákvæðum safnalaga nr. 141/2011 og öðlast gildi frá og með staðfestingu Safnaráðs, skv. 10. gr. þeirra laga. 

Verði safnið lagt niður skal safnkostur þess renna til Þjóðminjasafns Íslands. 

 

Samþykkt á fundi Héraðsnefndar Árnesinga bs  17. október 2013. 

 

Staðfest af Safnaráði