Sýningar og viðburðir

Haustsýning 2023 – 70 sögur á safni

15. september – 15. nóvember

70 sögur á safni er titill haustsýningar Byggðasafns Árnesinga sem verður opnuð föstudaginn 15. september kl. 18 í Húsinu á Eyrarbakka. Á sýningunni er lögð áhersla á að draga fram forvitnilega hluti með persónulega tengingu úr daglegu lífi fólks á 19. og 20. öld. Margir einstakir gripir eru á sýningunni líkt og þjóðbúningur sem Þórdís Símonardóttir ljósmóðir saumaði á eldri systur sína Ólöfu og líkan Sigurfinns Sigurðssonar af æskuheimili sínu Birtingarholti. Einnig má sjá ýmislegt fágæti eins og stólinn hennar Lofthænu, barnasnuð úr beini og  hrútsspeldi úr Þingvallasveit. Sögurnar á bak við gripina eru mismiklar og stundum nær horfnar. Borðstofan verður sneisafull af fróðleik og söguferðin kvíslast um allt safnið.

Byggðasafn Árnesinga varðveitir um 8.000 gripi héraðsins en sögurnar eru enn fleiri. Safnið fagnar 70 ára afmæli í ár og það er því engin tilviljun að valið var að segja 70 sögur á haustsýningunni.    

Safnið er opið daglega fram í septemberlok kl. 10 – 17 og fyrstu sýningarhelgina 16. og 17. september verður frír aðgangur. Í október verður opið kl. 13-17 um helgar. Hópar og skólar eftir samkomulagi. Verið öll velkomin.