Fólk streymdi úr sveit í þorp í hvirfilbyli breytinga á millistríðsárunum og reisti sér hús í líkingu við Kirkjubæ á Eyrarbakka. Blómaskeið kaupmanna í Húsinu var að líða undir lok en rafljós, gúmmístígvél og útvarp voru byltingar samtímans. Veröldin var að opnast og draumarnir voru stórir. Sýningin Draumur aldamótabarnsins í Kirkjubæ segir þessa sögu á óhefðbundin hátt þar sem litlar hugmyndakveikjur og örsögur kitla hugmyndaflugið. Bullustrokkurinn er komin niður í kjallara þar sem rotta felur sig, skófla verkamanns segir sögu Flóaáveitu, fyrsta vatnsveiturör á Selfossi hangir á vegg, og tennurnar hennar ömmu eru á sínum stað. Þetta er alþýðuhús með ríka sögu og gróskumikinn garð sem síðustu eigendur þess gerðu að hreinni paradís.
Kirkjubær stendur rétt vestan við Húsið og er opinn á almennum opnunartíma safnsins.
Nánar um opnunartíma hér
Íbúasaga Kirkjubæjar
Kirkjubær var byggður árið 1920 og var íbúðarhús fátæks fólks eða ungs fólks að byrja sína hjúskapartíð. Frá árinu 1979 varð Kirkjubær frístundahús. Fyrsta árið bjuggu þar tvær fjölskyldur. Hjónin Gísli Davíðsson og Margrét Torfadóttir með nýfæddum syni ásamt hjónunum Símoni Símonarsyni og Ingibjörgu Gissurardóttur sem einnig áttu nýfæddan son. Sigríður systir Ingibjargar bjó hjá þeim. Fólkið deildi heimili sem var ekki nema 36 fermetrar. Gísli var búfræðingur sem en vann mikið að gerð Flóaáveitunnar. Skemma í norðri reis ekki fyrr en 1932.
Mjög líklegt er að rafmagn hafi verið í Kirkjubæ strax frá upphafi því rafstöð var starfrækt á Eyrarbakka frá 1920. Vatn var hins vegar sótt út í brunn og stendur sá brunnur í garðinum sunnan við húsið. Símon og Ingibjörg fluttu burt að ári liðnu en ungu hjónin Gísli og Margrét tóku inn leigjendur í staðinn. Árið 1929 flutti litla fjölskyldan frá Eyrarbakka í leit að betri lífsafkomu og börnin þá orðin þrjú.
Árið 1930 var ár sorgar í húsinu því þá láta hjónin Sigvaldi Sigurðsson og Guðlaug Jóhanna Guðjónsdóttir lífið af slysförum eftir aðeins hálfs árs búsetu. Tildrög slyssins voru að pípa frá ofni lokaðist og litla húsið fylltist af reyk meðan hjóni sváfu. Litla dóttir þeirra, Ingibjörg svaf í öðru húsi þá nótt.
Tíð Bjarna Loftssonar og Guðrúnar Jónsdóttur hófst árið 1931 og bjuggu hjónin í Kirkjubæ til dauðadags. Næsti bær við var Melshús og þegar síðasti ábúandi þar dó keyptu Bjarni og Guðrún lóðina. Melshús var rifið og garður þeirra hjóna varð 600 fermetrar. Enn sést örla á leifum af rústum Melshúss í suðvesturhorni garðsins.
Olga Ingimarsdóttir, dóttir Guðrúnar, erfði Kirkjubæ eftir móður sína við lát hennar árið 1970. Þá komu leigjendurnir í húsið í þrjú ár. Hjónin Perla Smáradóttir og Guðjón R. Guðjónsson voru eigendur Kirkjubæjar frá 1973 til 1982. Árið 1979 keyptu tvenn hjón húsið og dvöldust þar í frítíma sínum.
Síðustu eigendur Kirkjubæjar voru hjónin Matthías Guðmundsson og Margrét Árnadóttir. Þeirra helsta afrek næstu áratugi var að rækta upp hlýlegan trjágarð í kringum húsið. Þau buðu oft gestum og gangandi að koma inn fyrir girðingu til að skoða og njóta garðsins. Byggðasafn Árnesinga keypti Kirkjubæ í desember 2011 með milligöngu athafnamanna á Eyrarbakka, þeirra Jóhanns Jóhannssonar og Hauks Jónssonar sem áttu húsið í nokkra mánuði. Húsið var keypt og uppgert af bræðrunum Guðmundi og Gísla Kristjánssonum fyrir arf Helga Ívarssonar frá Hólum í Stokkseyrarhreppi.