Hópmynd -melskurður í sandgræðslunni við Eyrarbakka árið 1935 - Ljósmynd Finnbogi Guðmundsson

Konurnar á Eyrarbakka

Sumarsýning Byggðasafns Árnesinga

Sýningin Konurnar á Eyrarbakka verður opnuð sunnudaginn 9. júní kl. 15.00 í Byggðasafni Árnesinga, Húsinu á Eyrarbakka og byggir hún á samnefndri bók eftir Jónínu Óskardóttur, bókavörð og menningarmiðlara.

Á sýningunni er fjallað um líf og störf kvenna í þorpi sem var lengi eitt stærsta þéttbýli á Íslandi. Þar birtast frásagnir um lífið innan og utan heimilis, um hversdagslífið og afrekin. Aðalpersónur eru 38 konur sem allar lifðu eða mundu tíma þegar nýtni og þrautseigja, en ekki síst nágrannakærleikur, var mikilvægur þáttur í lífi allra. Umfjöllunarefnið spannar langan tíma en í kastljósi er samfélagsmyndin um miðja síðustu öld; barnauppeldi, gestagangur, stórþvottar, niðursuða, sláturgerð og molasopinn í eldhúsinu, fá pláss á sýningunni en líka kvenréttindi, menntun og ferðalög.

Jónína bókarhöfundur á rætur sínar að rekja til Eyrarbakka og er með bókinni Konurnar á Eyrarbakka að skila áfram verki sem byggist á sagnagleði móður sinnar Hallveigar Ólafsdóttur. Í bókinni segir Jónína; „Alla tíð var mikil og sterk tenging hjá mömmu við Eyrarbakka. Í hvert sinn sem við ókum eftir aðalgötunni á Bakkanum, á leið að Eyri, æskuheimili pabba, rifjaði mamma upp kennileiti og sögur um húsin og fólkið á Eyrarbakka í den. Þá fannst mér allt lifna við og fortíðin verða ein af farþegunum í bílnum.“

Frítt er á safnið á opnunardaginn og sýningin mun standa fram í septemberlok.

Safnið er opið alla daga kl. 10 -17.

Verið velkomin!

Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.