Áraskipið Farsæll sem var á ögurstundu bjargað frá því að hverfa í sandinn prýðir í dag salarkynni Sjóminjasafnsins. Sýningin þar hverfist um sjómennsku og mannlíf við Suðurströndina á öldum áður þegar róið var daglega á opnum bátum út á haf til fiskveiða.

Hér sá gestir ótal andlit fólks sem háði oft erfiða lífsbaráttu en lagði grunn að sterku samfélagi við sjó þar sem þéttbýli óx hratt í lok 19. aldar. Gullsmiðurinn Oddur Oddsson, prjónakonan Jóhanna Gísladóttir og skipasmiðurinn Steinn Guðmundsson eru þeirra á meðal. Steinn var orðin gamall maður þegar hann smíðaði Farsæl árið 1915 en hann smíðaði fleiri en 300 áraskip og báta á ævinni.

Sumir dýrgripir eru aftur á móti nafnlausir og til að mynda veit enginn hver hann var, litli sjómaðurinn á fermingaraldri sem átti skinnklæðin sem standa nú í safninu.

Eftir heimsókn á þetta gamalgróna og fallega safn veistu ekki bara meira um sjósókn heldur líka af hverju það var merkilegt að vera tunnusmiður, hvernig búningur álfakóngs lítur út eða hvað fjalaköttur er. Svo er gestum velkomið að skoða ofan í verskrínunni okkar, því það er ómissandi að snerta lúðukróka og þorskhaus í heimsókn í Sjóminjasafnið.

Sjóminjasafnið stendur austan við Húsið og er gengið að því þvert yfir Garðstún. Ef komið er að því götumegin þá er heimilisfangið Túngata 59.

Það er opið kl. 11.00 – 17.00 yfir sumartímann og eftir samkomulagi.

Nánar um sögu safnsins og annað ítarefni verður í nánustu framtíðinni birt á heimasíðunni.

Fleiri sýningarhús

  • Kirkjubær 

  • Útihús og Eggjaskúr

  • Beitingaskúrinn

  • Þuríðarbúð