Rjómabúið á Baugsstöðum er sannkölluð perla meðal safna á Íslandi og er eina rjómabú landsins sem stendur eftir með öllum búnaði. Lækurinn er stíflaður þegar gestir heimsækja búið og rjómastrokkurinn og hnoðborðið marra í gang þegar vatnsaflið knýr tækin áfram. Látlaus en heimilisleg vistarvera Margrétar Júníusdóttur og Guðrúnar Andrésdóttur, síðustu starfsmanna búsins, er hluti af safninu. Þær bjuggu saman í rjómabúinu meðan starfsemin var í gangi. 

Rjómabúið var stofnað árið 1904 af 48 bændum úr Stokkseyrarhreppi og nágrannahreppum og var búinu valinn staður við Baugsstaðaá. Jón Gestsson í Villingaholti sá um smíði hússins og 1500 metra langur skurður var grafinn úr Hólavatni til að veita í vatnshjól búsins. Starfsemin hófst árið 1905 og þar var framleitt smjör, ostur og annað úr rjóma sem bændur færðu til búsins. Í fyrstu komu bændur með rjómann ríðandi á hestum en með tímanum voru lagðir vegir um starfssvæði búsins og bifreiðar komu til sögunnar. Markaðir framleiðslunnar voru tveir. Í fyrstu var mikið flutt út til Englands sem danskt hágæðasmjör en síðar fór stór hluti framleiðslunnar til kaupmanna í Reykjavík.  

Þegar best lét voru hátt á fjórða tug rjómabúa starfandi víða á landinu og juku þau hag bænda. Smátt og smátt lögðust þau af og þáttaskil urðu þegar mjólkursamlög komu til sögunnar um 1930. Ýmsir bændur héldu þó áfram að leggja rjóma í Baugsstaðarjómabúið og var þar síðast strokkað sumarið 1952. Rekin var verslun í Rjómabúinu fram til 1969 þegar Margrét lést. Skömmu síðar var stofnað varðveislufélag um Rjómabúið á Baugsstöðum. Nánar fróðleik má finna í bókinni Rjómabúið á Baugsstöðum 100 ára eftir Helga Ívarsson og Pál Lýðsson sem var gefin út árið 2005 og fæst í Rjómabúinu og í Húsinu á Eyrarbakka. 

Rjómabúið á Baugsstöðum hefur verið opið almenningi sem safn frá 1975. Það er opið laugardaga og sunnudaga í júlí og ágúst kl. 13-18 og á öðrum tímum eftir samkomulagi.  

Rjómabúið á Baugsstöðum er 5 km austan við Stokkseyri skammt frá Knarrarósvita.  

 

Almennur aðgangseyrir: 500   

Hópar utan opnunartíma: 10.000 lágmarksgjald 

Sjá nánar um heimsóknir utan opnunartíma undir: Móttaka hópa 

Sýningar í gangi: 

Fleiri sýningarhús

  • Húsið

  • Beitingaskúrinn

  • Hér og þar

  • Útihús og Eggjaskúr