Þuríðarbúð er sjóbúð sem gefur innsýn í aðstæður sjómanna á áraskipum á 19. öld. Sjóbúðin kúrir inni í miðri íbúðabyggð á Stokkseyri og er ætíð opin. Hún er hlaðin úr torfi og grjóti og bjálkar meðfram veggjum þar sem sjómenn gátu sofið tveir og tveir saman. Sjóbúð var allt í senn; svefnskáli, matstofa og dagstofa vermanna. Menn komu langt að til að fara á vertíð og á einhverjum tímapunkti í sögunni voru margir tugir sjóbúða á Stokkseyri og nágrenni. Iðandi mannlífið var við ströndina.
Þuríðarbúð er tilgátuhús reist til minningar um Þuríði Einarsdóttur af Stokkseyringafélaginu í Reykjavík árið 1949. Þuríður sem fæddist árið 1777 fór í sinn fyrsta róður ellefu ára gömul á bát föður síns en 17 ára varð hún háseti upp á fullan hlut hjá bróður sínum. Síðan stundaði hún sjósókn í rúma hálfa öld og lengst sem formaður. Hún þótti útsjónarsöm og varkár en samt áræðin og vinsæl meðal háseta. Þótt margar konur hafi sótt sjó þótti einstakt að kona væri formaður á bát. Þuríður klæddist karlmannsfötum að jafnaði vegna sjómennskunnar en til þess þurfti leyfi sýslumanns. Þuríður varð einnig þekkt fyrir að koma upp um þjófa í svokölluðu Kambsráni.
Þuríðarbúð var endurhlaðin árið 2001 undir stjórn Guðjóns Kristinssonar hleðslumeistara og endurbætt árið 2013. Verbúðin er í eigu Sveitarfélagsins Árborgar en Byggðasafn Árnesinga varðveitir muni hennar og sér um sýningarhald og kynningu.
Opin allt árið allan sólarhringinn og engin aðgangseyrir