Útihúsin og Eggjaskúrinn minna á hve stórt heimilishaldið var í Húsinu áður fyrr. Húsbóndinn grúskaði í fuglum og reykti pípu í skúrnum meðan kindur jörmuðu í fjárhúsinu og mjaltakonan mjólkaði kýrnar í fyrsta steypta fjósi á Suðurlandi. Í dag birtist undraveröld fugla á náttúrugripasýningu í Eggjaskúrnum ásamt sögum um fólkið sem markaði spor í sögu skúrsins. Í fjárhúsinu er hægt að setjast niður með vinum og fjölskyldu og njóta andrúmsins eða taka þátt í smiðju á vegum safnsins.

Eggjaskúrinn sem við sjáum í dag er endurbygging en upprunalegi skúrinn stóð þarna frá því fyrir aldamótin 1900 fram til ársins 1926. Þar var Peter Nielsen faktor Eyrarbakkaverslunar með einskonar vísindasetur, aðstöðu til fuglarannsókna og skrifta og átti stórt safn af uppstoppuðum fuglum og útblásnum eggjum sem þöktu heilan vegg. Þannig fékk byggingin sitt sérstaka nafn. Nielsen var mikill fuglaunnandi og segir sagan að hann hafi stundum til gamans sett korn í skegg sitt svo fuglar kæmu og mötuðust. Eggjaskúrinn var endurbyggður árið 2004 fyrir forgöngu Vestur-Íslendinga frá Washington-eyju á Michican-vatni. Þegar framkvæmdir hófust kom í ljós dágóður kjallari, tveggja metra djúpur og nú er hægt að skoða hann í gegnum gler í gólfi. Við hlið Eggjaskúrsins er stór hlaðinn grjótgarður þar sem voru ræktaðar kanínur til manneldis. Seinna var Kanínugarðurinn notaður til að þurrka fisk og sem fjárrétt eða matjurtagarður. Um tíma stóð kofi í miðjum garðinum þar sem höfðu aðsetur haltur örn og nokkrar dúfur. Útihúsin þrjú standa í röð, hjallurinn, fjárhúsið og fjósið, öll byggð á árunum 1910 -1919. Byggingarnar mynda litla húsaröð norðan við Húsið á kantinum á iðagrænu Garðstúninu. Í hjallinum var fiskþurrkun, fjárhúsið og kolageymslan stendur í miðju og svo fjósið sem telst fyrsta steinsteypta fjós á Suðurlandi. Það kom í stað eldra fjóss úr torfi. Nýja fjósið var með steinsteypta flóra og bása í dönskum herragarðsstíl, gluggar voru pottsteyptir sexrúðugluggar. Þetta var glæsifjós síns tíma með niðurgröfnu steinsteyptu haughúsi. Þegar heimilisfólkið í Húsinu var löngu hætt að halda kýr var fjósið samt í notkun og í nær tíu ár fram til ársins 1963 hýsti Dagbjartur í Garðbæ II kýrnar sínar í fjósinu. Útihúsin eru upprunaleg að öllu leyti en árið 2011 hóf Þjóðminjasafn Íslands að gera við þau.

Strax eftir að Húsið var byggt árið 1765 voru byggð útihús úr torfi með ýmis hlutverk, eins og fjós, hesthús, fjárhús, svínastía, eldiviðargeymsla, vaskhús, hænsnahús, reykhús og kamrar. Stór hlaða reis suðaustan við Húsið og standa hlaðnir veggir hennar enn. Gamlar heimildir segja einnig frá vagnskemmu og mjólkurhúsi. Eggjaskúrinn og útihúsin eru sýnilegur hluti af búsetulandslagi Hússins en undir grasverðinum leynast leifar gamalla horfinna bygginga hver og ein með sína sögu.

Fleiri sýningarhús

  • Rjómabúið

  • Hér og þar

  • Þuríðarbúð

  • Kirkjubær