Rannsóknir

Við safnið eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir í samræmi við stofnskrá safnsins, en þar segir: “Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi.” Rannsóknir safnsins eru almennt um sögu héraðsins en þó eru skráning og rannsóknir á safnmunum tímafrekar. Sömuleiðis hefur safnið stundað fornleifarannsóknir og nú síðustu ár tileinkað sérsamtímasöfnun eftir skandinavískri aðferðafræði. 

 

Almennar rannsóknir 

Rannsóknastarf Byggðasafns Árnesinga fellst fyrst og fremst í öflun viðbótarupplýsinga um safngripi og ljósmyndir – og reyndar almennt um sögu og menningu alls héraðsins – og úrvinnsla og vistun á þessum upplýsingum. Jafnframt hefur verið lögð mikil rækt við sögu Hússins á Eyrarbakka. Meðal rannsókna má nefna: 

Rannsóknir í tengslum við skráningu og forvörslu safngripa. 

Rannsóknir og greining á ljósmyndum. 

Rannsóknir – til að svara fyrirspurnum til safnsins. 

Rannsóknir vegna sýninga. 

Rannsóknir á húsum og búsetulandslagi – húsakannanir. 

Rannsóknir á sögu Hússins. 

Rannsóknir á sögu safnanna. 

Rannsóknir af áhuga og frumkvæði starfsmanna. 

Rannsóknir á afmörkuðum þáttum er tengjast sögu héraðsins og rúmast innan þess sem segir um hlutverk safnanna í stofnskrám. 

 

Afrakstur rannsókna má sjá í útgáfustarfi og þá fyrst og fremst í útgáfu á rannsóknarskýrslum.  Heimildarmyndin Húsið á Eyrarbakka eftir Andrés Indriðason, sem gerð var árið 2007 og sýnd í Sjónvarpinu nokkru síðar, er afrakstur rannsókna undanfarinna áratuga. Sömuleiðis bókin Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson safnstjóra sem kom út árið 2014. 

 

Fornleifarannsóknir 

Frá 2004 til 2010 var starfrækt fornleifadeild við Byggðasafn Árnesinga undir forystu Margrétar Hallmundsdóttur fornleifafræðings.  Aðalverkefni deildarinnar var skráning fornleifa í Sveitarfélaginu Árborg. Vorið 2008 gaf safnið út áfangaskýrslu sem inniheldur fornleifaskráningu á ríflega helmingi af Sandvíkurhreppi hinum forna og öllu landi utan ár. Auk fornleifaskráningar í Árborg tók fornleifadeildin að sér skráningarverkefni vegna framkvæmda þar sem skrá þurfti fornleifar. Deildin var jafnframt í margvíslegum samstarfsverkefnum. Fornleifaskráning í Árborg lá niðri í rúman áratug en árið 2021 samdi sveitarfélagið við Fornleifastofnun Íslands ses um áframhald skráningarinnar. Nánari upplýsingar um fornleifar og fornleifaskráningu gefa Minjavörður Suðurlands og Minjastofnun Íslands. minjastofnun.is. 

 

Samtímarannsóknir 

Byggðasafn Árnesinga hefur unnið að samtímavarðveislu í nokkur ár. SAMDOK aðferðin felst í skráningu á vettvangi frekar en söfnun gripa. Tekið eru viðtöl, ljósmyndir og hreyfimyndir og skráð á vettvangi. 

SAMDOK-aðferðafræðin var kynnt íslenskum safnamönnum af Lilju Árnadóttur fagstjóra hjá Þjóðminjasafni á Farskóla íslenskra safnamanna 1997 sem þá var haldinn að Reykjum í Hrútafirði. Starfsmenn safnsins, bæði Lýður Pálsson og Linda Ásdísardóttir, hafa setið námskeið og ráðstefnur á norrænum vettvangi um samtímavarðveislu. Rannsóknir eftir SAMDOK-aðferðinni hafa verið unnar hjá safninu og hefur það styrkt sig vel í sessi á þessum vettvangi. 

 

Unnið var að eftirtöldum samtímaverkefnum hjá Byggðasafni Árnesinga: 

Hvar varst þú? 

Verkefnið fólst í söfnun jarðskjálftasagna frá 2008. Safnað var um 200 frásögnum fólks sem upplifði jarðskjálftann 29. maí 2008 af eigin raun.  Afrakstur söfnunarinnar mátti sjá á sýningu í Húsinu á Eyrarbakka sumarið 2009.  Safnasjóður styrkti verkefnið þ.e. úrvinnslu og vistun afraksturs en áður hafði Menningarsjóður Suðurlands styrkt sýningu á jarðskjálftasögum. 

 

Leikir barna 2009 

Safnið tók þátt í samstarfsverkefni sem kallaðist Leikir barna 2009 og miðaði að því að rannsaka ólíka leiki barna víðs vegar um landið. Alls tóku átta söfn þátt í þessu verkefni og hófst það árið 2008. Linda Ásdísardóttir vann vettvangsrannsókn um haustið í tveimur skólum í Árnessýslu, Flóaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Afraksturinn skilaði sér í sameiginlegri sýningu og ritefni árið 2011.  Verkefnið var styrkt af Safnasjóði. Sjá hér heimasíðu sýningarinnar: thjodminjasafn.is  

 

Brauð 

Þriðja samtímarannsóknin sem Byggðasafn Árnesinga var þátttakandi í var verkefnið Hverarúgbrauð sem hófst árið 2008. Gerð var rannsókn á vinnslu hverarúgbrauðs í Hveragerði með aðstoð frá þremur ólíkum bökurum í þorpinu. Bæði er verkmenningin rannsökuð og einnig saga hverarúgbrauðs á þessu svæði. Afrakstur rannsóknarinnar var miðlað stafrænt á netinu og með sýningu á safninu. Þetta var hluti af samnorrænu verkefni Bröd i Norden sem var á vegum Norsam. Fleiri söfn á Íslandi tóku þátt.  

Brauðbrunnur nefnist vefur verkefnisins: braudbrunnur  

og hér var fjallað um bakstur brauðs í Hveragerði: braudbrunnur