Húsið á Eyrabakka
Byggðasafn Árnesinga
Þuríðarbúð á Stokkseyri

Þuríðarbúð var reist af Stokkseyringafélaginu í Reykjavík árið 1949 til minningar um Þuríði Einarsdóttur formann og horfna starfshætti. Er Þuríðarbúð tilgátuhús sem gefur góða innsýn í aðstæður vermanna á 19. öld.
Þuríður Einarsdóttir formaður var fædd árið 1777, dáin 1863. Hún fór í sinn fyrsta róður ellefu ára gömul á bát föður síns en 17 ára varð hún háseti upp á fullan hlut hjá bróður sínum. Síðan stundaði hún sjósókn í rúma hálfa öld eða til 1843 en þá hætti hún sjómennsku sökum heilsubrests. Mestan þann tíma var hún formaður á bátum. Þótti hún góður formaður, útsjónarsöm, varkár en samt áræðin og vinsæl meðal háseta. Einstakt þótti að kona væri
formaður á bát. Hún klæddist karlmannsfötum að jafnaði vegna sjómennskunnar en til þess þurfti leyfi sýslumanns.
Á Stokkseyri skiptu sjóbúðir eins og Þuríðarbúð tugum á seinni hluta 19. aldar. Þær voru hlaðnar úr torfi og grjóti. Bálkar voru meðfram veggjum og í þeim sváfu tveir og tveir saman og voru þeir kallaðir lagsmenn. Sjóbúðirnar voru allt í senn; svefnskáli, matstofa og dagstofa vermanna.
Þuríðarbúð var endurhlaðin árið 2001 undir stjórn Guðjóns Kristinssonar hleðslumeistara.
Þuríðarbúð er í umsjón Sveitarfélagsins Árborgar en Byggðasafn Árnesinga varðveitir muni hennar og sér um sýningarhald og kynningu.
Opnunartími: Uppl. í síma 483 1082.
Phone
(+354) 483-1504
VISIT
11:00 – 18:00
Mán–Sun
Byggðasafn Ánesinga
info@byggdasafn.is
Address
Eyrargata 50, 820 Eyrarbakki