Leikur að Læra

Heimsókn á safnið getur sannarlega verið skemmtileg og spennandi afþreying fyrir alla fjölskylduna! Þar er ótal margt forvitnilegt að sjá, skoða og upplifa. Alls konar gömul hús, gripir, myndir og sögur sem sameina þanka kynslóðanna og geta verið kveikja að skemmtilegum samtölum og vangaveltum. Heimsókn á safn brúar kynslóðabil.  

Ratleikur sem leiðir gesti um öll safnahúsin vekur alltaf lukku og sama má segja um árstíðabundnar smiðjur sem eiga heima í grófu en hlýlegu umhverfi fjárhússins. Að vori málum við páskaegg og  gróðursetjum blóm. Um sumar er málað frjálst, smíðað og kúmen tínt. Þegar líður að vetri sendum við póstkort til ástvina, vinnum með ull og gerum músastiga.  Ef fjölskyldur eða smærri hópar taka með sér nesti og lautarferðateppi þá er garðurinn fyrir utan Húsið tilvalinn staður til að eiga ljúfa stund í vitund nútíðar umkringdur fortíðinni. 

Á safninu er gaman að vera barn en þó er mikilvægt að vera alltaf í fylgd með fullorðnum. Enginn aðgangseyrir er fyrir yngri en 18 ára.  

 

Það sem gestir höfðu að segja: 

„að skoða safnið með dóttursyni mínum var dásamlegt. Fara í gegnum sýningarnar með hans augum og staldra við það sem vakti áhuga hans sem var allt annað en ég hefði mögulega komið auga á“.  

„krakkarnir elskuðu ratleikinn. Ótrúlega skemmtilegur og passlegur!“  

„notaleg og einlæg samverustund. Síðan gátum við farið í fjöruferð í framhaldinu!“ 

 

Safnfræðsla – Skólahópar 

Einn af hornsteinum faglegs safnastarfs er safnfræðsla.  Við safnið er lagt mikið upp úr því að fá skóla í heimsókn allt skólaárið og okkur þykir vænt um þau tengsl sem við höfum við skóla sýslunnar. Fræðsluverkefnin eiga að undirbyggja þá vinnu sem unnin er innan veggja skólastofunnar og mögulega vera glæðing inn í dagleg verkefni nemenda og kennara.  

Verkefnin eru sett fram á þann hátt að auðvelt er að nýta fróðleik safnaheimsóknarinnar til úrvinnslu þegar komið er í kennslustofuna aftur! Við viljum styðja við það starf sem unnið er í skólunum og bæta nýjum víddum við nálganir og kennsluaðferðir. Það er markmið Byggðasafnsins að halda áfram að þróa fjölbreytt, krefjandi, skemmtileg og áhugaverð fræðsluverkefni út frá safnkosti, sýningum og sjálfu safnasvæðinu. Þessi verkefni verða mun betri ef þau eru unnin í samvinnu við skólasamfélagið og þróuð áfram í virkri samvinnu við kennara og nemendahópa.  

 

Fyrir yngstu gestina 

Nemendur á leikskóla eru tíðir og afar skemmtilegir gestir. Formið á þeirra heimsóknum er alls konar. Stundum hefur safnkennarinn fengið ótal spurningar áður en hann nær að spyrja nemendurna. Hefð er fyrir heimsóknum á þorranum og þá fá börnin fræðslu um horfna búskaparhætti og mjólkurvinnslu. Oft slæðast jólin aðeins þarna inn og almennt heimilishald á 18. og 19. öld. Þetta eru einlægar og afslappaðar heimsóknir þar sem börnin ráða ferðinni innan ákveðins ramma.  

Söguskikkjan er varðveitt hjá okkur. Uppruni hennar er óþekktur en eitt er víst að sá sem sveipar sig skikkjunni hefur orðið. Þetta er skemmtileg og flæðandi dagskrá þar sem krakkarnir skiptast á að velja sér spennandi stað inni á sýningum safnsins og sveipa sig söguskikkjunni. Þá verða aðrir að hafa alveg hljóð, svo hljótt að það megi heyra saumnál detta. Þá getur sá sem er með söguskikkjuna á herðunum sagt frá.  Við á safninu eigum líka svakalegar sögur til að segja!  

 

Hljóðasögurnar hans Lubba 

Elstu nemendur leikskóla og yngstu nemendur grunnskóla geta heimsótt safnahundinn Lubba sem margir nemendur þekkja fyrir úr bókinni um Lubba sem finnur málbein. Nemendur sameinast um að hjálpa Lubba að finna sögubein sem eru falin hér og þar um safnið. Verkefnið er leikur en í leiðinni örlítill sögulegur fróðleikur, skrítin orð og nokkur málhljóð. Málbeinin á safninu geyma skemmtilegar hljóðasögur sem eru dagsannar! 

 

Komdu og prófaðu íslenska þjóðhætti 

Fljótlega eftir páska opnar „pop up“ ullarverkstæði hjá okkur á safninu. Tóvinnukona stendur vaktina með okkur starfsmönnum safnsins þegar við tökum á móti nemendum víðs vegar að sem eiga það sameiginlegt að vera í 4. bekk og vinna með námsefnið „Komdu og skoðaðu íslenska þjóðhætti“. Nemendum er skipt upp í nokkra hópa og fara á mismunandi stöðvar á safninu og kynnast af eigin raun ýmsu sem einkenndi líf og störf Íslendinga fyrr á tíð. Nemendur fá að kemba ull, búa til lyppur, spinna jafnvel með halasnældu, taka á þurrkuðum þorskhausum, fara vatnsveginn og líta eftir skipum svo fátt eitt sé tínt til. Á hverju ári fara nokkur hundruð nemenda í gegnum þessa dagskrá hjá okkur. Hver heimsókn er einstök en allar eiga þær það sameiginlegt að vera stórskemmtilegar! 

 

Jólatrén fara á flakk 

Það er fastur liður á aðventunni að vera í samstarfi við skóla og heimsækja ýmist einn árgang eða einn bekk með þrjú jólatré í farteskinu. Jólatrén eru eftirgerðir af einu af okkar safngripum en við varðveitum ótal heimasmíðuð jólatré. Fræðsla og samvera, hugleiðingar um jólin þá og nú. Jólatrén eru síðan skilin eftir og nemendur fá að skreyta þau eftir eigin hugmyndum. Að lokum eru trén sett upp á jólasýningu Byggðasafns Árnesinga. Jólatrén hafa nú þegar farið í Vallaskóla, Menntaskólann að Laugarvatni og Flóaskóla.   

Safnið vinnur einnig með sitt nærsamfélag og sú hefð hefur skapast að nemendur í 10. bekk við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa komið í safnið og skreytt eftirlíkingu af hinu forláta spýtujólatré frá Hruna. Skreyting  jólatrjáa verður þannig að samverustundum barna víða úr sýslunni á aðventunni.    

 

Er töfrasproti varðveittur á Byggðasafni Árnesinga? 

Við erum öllu vön þegar kemur að því að taka á móti eldri nemendum í það sem kalla má skapandi skólaheimsóknir, hvort sem nemendur teikna, leika, skrifa eða eitthvað allt annað. Nemendur í skapandi skrifum í framhaldsskólum sýslunnar hafa heimsótt okkur og látið gamminn geisa. Heimsóknirnar hafa verið uppbyggðar á þann hátt að eftir stutta kynningu eru nemendum skipt í hópa og þau fá að fara á eigin vegum um safnið með verkefnalýsingu. Verkefnið er auðvelt að nýta áfram í kennslu og til áframhaldandi sköpunar í næstu kennslustundum.  

 

Gersemarnar alþýðuhúsin 

Trésmíðanemar Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa heimsótt safnið reglulega í tengslum við áfanga á þeirra námsleið. Verið er að vinna námsefni á vegum safnsins sem hentar þeirra áfangalýsingu.  Nemendur vinna verkefni hér á Eyrarbakka í tengslum við gömlu húsin í þorpinu og eru safnhúsin hluti af þeirri fjölbreyttu flóru. Námsefnið er unnið í mikilli og náinni samvinnu við kennara og nemendur trésmíðadeildarinnar og fagfólk fengið að borðinu.  

 

Við getum tekið málin 

Heimsóknir háskóla hafa verið klæðskerasniðnar hverjum hópi fyrir sig. Hópar hafa fengið fyrirlestra um það málefni sem við á eða komið í nokkurs konar hnýsi heimsókn þar sem eitt sértækt efni er til umfjöllunar.  

Nánar um skólaheimsóknir í síma:

síma 483 1504 /483 1082 og með tölvupósti info@byggdasafn.is