Fróðleikur

Ásgrímsleiðin 

Ásgrímsleiðin er tillaga að ökuferð um Flóann á söguslóðir Ásgríms Jónssonar listmálara með viðkomu á sýningum Listasafns Árnesinga og Byggðasafns Árnesinga og byrjað eða endað er í Listasafni Íslands – í húsi Ásgríms. 

 

Ásgrímur var fæddur 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Hann gerði málaralistina að ævistarfi og varð brautryðjandi í listasögu þjóðarinnar.  Umhverfi bernskuheimilisins hafði sterk áhrif á hann og listsköpun hans og ferðin fetar þá slóð. Í Húsinu á Eyrarbakka er sýningin Drengurinn, fjöllin og Húsið. Þar er varpað ljósi á æsku hans og unglingsár. Upp úr fermingu réðst Ásgrímur til vistar í Húsinu á Eyrarbakka og var þar ekki í kot vísað. Farið er um Stokkseyri að Gaulverjabæjarkirkjugarði þar sem Ásgrímur hvílir. Hægt er að heimsækja minnismerki um listamanninn sem stendur innan skógræktarinnar Timburhóla stutt frá æskustöðvum hans.  Þótt húsin í Rútsstaðarhverfi séu löngu horfin má enn sjá frá veginum Álfakirkju Ásgríms.  Á þessari leið sést vel fjallahringurinn sem fóstraði sveininn og veitti honum innblástur.  

Síðan er sýningin Hornsteinn afmælissýning Listasafns Árnesinga í Hveragerði heimsótt en þar eru fjölmörg verk Ásgríms sýnd.  Rætur Listasafns Árnesinga má rekja til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur, frænku Ásgríms, og tveggja sona hennar sem færðu Árnesingum sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma. Nítján þessara verka voru eftir Ásgrím. 

Listamaðurinn sjálfur ánafnaði Listasafni Íslands verk sín og heimili á Bergstaðastræti 74 og þar er í dag sýning á heimili hans og verkum. Upplagt er að heimsækja Hús Ásgríms áður en Ásgrímsleiðin er farinn eða í kjölfar þess. 

Ásgrímsleiðin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands. Með Ásgrímsleiðinni vilja söfnin vekja athygli á ævi og starfi Ásgríms Jónssonar en einnig fagna afmæli safnanna.  Byggðasafnið á 70 ára afmæli á árinu og Listasafn Árnesinga fagnar 60 ára afmæli. Ásgrímsleiðin er afmælisþríleikur okkar Árnesinga. Ásgrímsleiðin er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.