Hér og þar 

Sögulega gripi Árnessýslu má sjá á 17 stöðum um allt Suðurland þótt höfuðstöðvarnar séu staðsettar á Eyrarbakka. Þannig er sögunni miðlað í Skíðaskálanum í Hveradölum, við dyr Skálholtsdómkirkju, Samansafninu á Sólheimum í Hrunamannahreppi, í Þjórsárstofu í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, bókasafninu á Selfossi og mun víðar.   

Starfssvæði safnsins er Árnessýsla öll og er því nokkuð víðfeðmt, það nær með fram strandlengjunni frá Þjórsárósum og vestur í Selvog og upp blómlegar sveitirnar, upp á afréttina að Langjökli og Hofsjökli. Í Árnessýslu eru merkir staðir eins og Skálholt, Eyrarbakki, Gullfoss, Geysir og Þingvellir. Helstu þéttbýlisstaðir eru Selfoss, Hveragerði, Þorlákshöfn, Stokkseyri, Eyrarbakki og Flúðir. Í fyrstu var áhersla söfnunar á gamla íslenska bændasamfélagið en söfnunarsviðið hefur lítillega breyst en safnmunir eiga þó allir það sammerkt að bera vitni um líf, menningu og störf fólksins í Árnessýslu. 

Söfnun, varðveisla, miðlun og kynning á safnkosti er hlutverk safnsins og allur safnkosturinn er sýnilegur í gagnagrunninum sarpur.is  Stór hluti safngripa er á grunnsýningum safnsins í Húsinu, Kirkjubæ, Eggjaskúrnum og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Safngripir eru lánaðir til viðurkenndra stofnana og sýninga til lengri eða skemmri tíma samkvæmt lánssamningi. 

Eigandi safnsins er Héraðsnefnd Árnesinga bs og innan nefndarinnar eru þessi átta sveitarfélög Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Flóahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur.