Kjólarnir kveðja
Kjólarnir kveðja
Sumarsýningin “Kjóllinn” í Húsinu er að renna sitt skeið og við kveðjum kjólana með viðhöfn. Þessa síðustu sýningarhelgi mun skrjáfa í pilsum, stofurnar fyllast af söng og skvaldri og auðvitað verða kjólar út um allt. Laugardagskvöldið 30. september mætir dragdrottningin Tourette Fine í stássstofu Hússins og ætti enginn að missa af þeim einstaka viðburði. Í kjólakaffi sunnudaginn 1. október mæta margir góðir gestir; mæðgurnar Bryndís og Kristín sem eiga og reka verslunina Lindina á Selfossi segja bransasögur, Ásta Guðmundsdóttir hönnuður og listamaður sýnir einstakan kjól úr grjóti og rithöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson veltir vöngum yfir kjólum og körlum. Kjólabloggarinn Thelma Jónsdóttir mætir í lok dags og sýnir síðasta kjól sýningarinnar. Söngkonan kunna Ágústa Eva Erlendsdóttir og píanistinn Kjartan Valdemarsson, sem hafa slegið í gegn með uppáhaldslögunum hennar ömmu, koma og gleðja gesti með flutningi á vel völdum lögum úr prógrammi sínu. Frítt er á alla viðburði kjólasýningarinnar og er tilvalið að grípa tækifærið og sjá þessa litríku sýningu. Kjólar sýningarinnar eru bæði úr safneign og frá gestum. Í forgrunni eru kjólar helgu Guðjónsdóttur frá Litlu-Háeyri og Guðfinnu Hannesdóttur frá Hólum í Stokkseyrarhreppi. Þær eru báðar fæddar snemma á 20. öld en kjólar frá gestum eru nýir og gamlir, heimasaumaðir eða keyptir. Sjón er sögu ríkari.