Endurnýjaður þjónustusamningur um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka

Endurnýjaður þjónustusamningur um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka

16/12/2024

Sveitarfélagið Árborg og Byggðasafn Árnesinga hafa skrifað undir áframhaldandi samning um rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka.

Samningurinn felur í sér að Byggðasafn Árnesinga tekur að sér að sjá um daglegan rekstur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og hafa umsjón með  miðlun í Þuríðarbúð á Stokkseyri. Framlag til rekstursins er greitt mánaðarlega í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar. Um er að ræða endurnýjun á þjónustusamningi sem gerður var árið 2001 og þarfnaðist endurnýjunar.

Sjóminjasafnið er staðsett rétt við Húsið á Eyrarbakka og er alla jafna opið í samræmi við opnunartíma Byggðasafns Árnesinga. Safnið hýsir m.a. áraskipið Farsæl sem er tólfróinn teinæringur smíðaður á Eyrarbakka árið 1915, hafði allt að 14 manna áhöfn og gat borið 10 tonn eða 1000 fiska. Í safneign Sjóminjasafnsins eru um 800 safnmunir og um 6000 ljósmyndir.  Í eigu Sjóminjasafnsins er einnig Beitningaskúrinn sem byggður var 1925 á blómaskeiði vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Útflattur bátur á vesturhlið vekur jafnan mikla athygli.

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir Braga Bjarnason bæjarstjóra Árborgar og Lýð Pálsson safnstjóra Byggðasafns Árnesinga undirrita samninginn þann 13. desember 2024 við Farsæl.