Skáldastund í Húsinu á Eyrarbakka
Skáldastund í Húsinu á Eyrarbakka
Á fyrsta í aðventu, sunnudaginn 1. desember klukkan 15 lesa höfundar úr nýútkomnum verkum sínum í stássstofu Hússins á Eyrarbakka. Boðið er upp á ólíka höfunda sem allir hafa getið sér gott orð fyrir ritverk sín hvort sem það eru spennusögur, skáldsögur, ljóðagerð eða sagnfræði. Þeir höfundar sem heimsækja Húsið í ár verða þau Erla Hulda Halldórsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir og Ragnar Jónasson.
Guðmundur Andri Thorsson kynnir skáldsögu sína Synir himnasmiðsins þar sem segir af tólf ólíkum karlmönnum og regnvotum vordegi í lífi þeirra. Ragnar Jónasson hefur samið fjölmargar glæpasögur og hann mun kynna bókina Huldu um Huldu Hermannsdóttur rannsóknarlögreglumann sem klók er að upplýsa sakamál, en á í erfiðleikum í einkalífi sínu. Margrét Lóa Jónsdóttir ljóðskáld kynnir og les úr verðlaunaðri ljóðabók sinni Pólstjarnan fylgir okkur heim sem er magnaður ljóðaseiður um lífið, dauðann, tímann innra með okkur og veraldarundrið vonina. Erla Hulda Halldórsdóttir sem er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands mun kynna nýtt sagnfræðiverk sitt Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Umfangsmikið bréfasafn tengt henni gaf Erlu Huldu tækifæri til að setja hversdagssögu 19. aldar í þetta tímamótaverk. Guðrún Eva Mínervudóttir er með bókina Í skugga trjánna þar sem tekist er á við veruleikann af einlægni og áræðni svo úr verður áhrifamikil saga.
Jólasýning Byggðasafns Árnesinga er opin kl. 13-17 sama dag og næstu tvo sunnudaga. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Sunnudaginn 8. desember verður sannkölluð jólaveisla með fjölbreyttum viðburðum og einnig verður opið sunnudaginn 15. desember.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.