Ljósmyndir og munir
Yfir sjö þúsund ljósmyndir eru varðveittar í Byggðasafni Árnesinga. Flestar tengjast þær sögu Eyrarbakka og komu til Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka á árabilinu 1988 til 1998. Ljósmyndirnar voru teknar af Aðalsteini Sigurmundssyni skólastjóra, Sigþóri Guðjónssyni frá Hólmsbæ, Aðalsteini Sigurjónssyni í Sölkutóft og mörgum fleirum og sýna mannlíf og hús á Eyrarbakka á áratugunum um miðja 20. öld. Aðrar gersemar eru ljósmyndir tveggja danskra kvenna Agnesar Lunn og Oline Lefolii sem sýna fólk í frístundum og daglegum störfum í tengslum við Húsið á Eyrarbakka og eru frá árabilinu 1890 til 1912. Nýlega eru komnar til safnsins ljósmyndir úr fórum Kristjáns Jóhannessonar kaupstjóra á Eyrarbakka og fágætt póstkortasafn frá Herdísarvík í Selvogi.
Byggðasafn Árnesinga tekur ekki við ljósmyndum til varðveislu nema í undantekningatilvikum og í tengslum við sérsvið safnsins. Vísað er á Héraðsskjalasafn Árnesinga um móttöku ljósmynda.