Jólatré og músastigar, skáld og skautar
Jólatré og músastigar, skáld og skautar
Jólin á Byggðasafninu hefjast 3. desember með opnun jólasýningar, skáldastund og músastigagerð. Á sýningunni þetta árið má sjá skauta og sleða í eigu safnsins í sambland við jólatré gömul og ný. Sýningin er tileinkuð skautum og sleðum en sú var tíðin að hvert einasta barn á Eyrarbakka og nágrenni renndi sér á skautum. Ungir sem gamlir fóru yfir frosin vötn, dælur og skurðir og hægt var skauta æði langt. Á opnunardaginn 3. desember geta gestir komið í Kirkjubæ frá 13.00 til 15.00 og gert músastiga sem við munum hengja upp í þessu fallega alþýðuhúsi. Skáldstund hefst svo í stássstofunni kl. 16.00 og eru það Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Þórarinsson, Guðrún Eva Minervudóttir, Vigdís Grímsdóttir og Þórarinn Eldjárn sem heimsækja okkur. Í eldhúsinu verður heitt á könnunni og jólasveinabrúður gleðja augað.
Ávallt er hægt að panta séropnun fyrir hópa en sú nýjung verður þetta árið að almenn opnun verður á jólasýninguna þrjá sunnudaga í desember 4., 11., og 18. kl. 13.00 – 17.00 og enginn aðgangseyrir. Kirkjubæ verður opinn á sama tíma.