Söfn Árnesinga bjóða í heimsókn
Söfn Árnesinga bjóða í heimsókn
Söfn Árnesinga bjóða gesti sérlega velkomna í heimsókn komandi helgi og er upplagt að nota tækifærið og flakka á milli safna.
Á Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka verður póstkortasýningin „Með kveðju um allt land“ opin laugardag og sunnudag 5. og 6. nóvember kl. 13 – 17 og ókeypis aðgangur. Á sýningunni gefur að líta fjölbreyttan myndheim íslenskra póstkorta. Sýningin eru hluti af nýafstaðinni sýningu Þjóðminjasafns „Með kveðju“. Allir gestir fá frímerkt póstkort til að senda vinum og ættingjum og heitt verður á könnunni. Litla alþýðuhúsið Kirkjubær á Eyrarbakka verður opið á sama tíma og þar verða sýndar ljósmyndir frá vinnusmiðju sumarsins „Andar“.
Héraðsskjalasafn Árnesinga á Selfossi býður gestum og gangandi að koma á föstudaginn 4. nóvember og skoða sérvalin myndasöfn. Kannski veist þú hver er á myndinni og leggur þannig eitthvað nýtt til sögunnar?
Á Listasafni Árnesinga verður fjölbreytt dagskrá sunnudaginn 6. nóvember „Fjölskyldustund á safni“ er nýung á Listasafninu og verður fyrsta sunnudag hvers mánaðar kl. 14-15.. Sýningarspjall með Aðalheiði Valgeirsdóttur, sýningarstjóra um sýninguna „Tímalög“ hefst síðan kl. 15.. Listasafn Árnesinga er opið samkvæmt venju frá fimmtudegi til sunnudags frá 12-18 og ókeypis aðgangur.