Andi á þremur söfnum í lok sumars

Andi á þremur söfnum í lok sumars

28/06/2016

Þegar skyggja fer í sumarlok mun listahópurinn Tura Ya Moya, undir forystu dönsku listakonunnar Karen Thastum, heimsækja söfn Árnessýslu og sýna listaverk sem gengur undir grænlenska nafninu Anersaaq  eða Andi á íslensku  Um er að ræða ljósagjörning utandyra þar sem mynd og hljóð tvinnast saman á magnaðan hátt.  Listaverkið er alþjóðlegt og ferðast á milli smárra byggða í Noregi, Íslandi, Grænlandi og Danmörku.  Hér á Íslandi heimsækir listahópurinn Byggðasafnið, Héraðsskjalasafn Árnesinga á Selfossi og Listasafn Árnesinga í Hveragerði á tímabilinu 25. ágúst – 9. september og mun baða byggingarnar ljósi að kvöldlagi.

Vinnusmiðjur verða haldnar  samhliða sýningunni og listamenn færa síðan afraksturinn í margmiðlunarbúning.   Á þann hátt bætist stöðugt efni við listaverkið sem verður að lokum bræðingur af anda hvers staðar.  Aðstaða Tura ya Moya er gámur sem gegnir hlutverki vinnustofu og sýningarklefa. Gámurinn flakkar á milli landa og staða. Hann er þegar kominn á Eyrarbakka og bíður eftir að flytjast á lóð safnsins í lok ágúst. Í för með Karen verða listamennirnir Udo Erdenreich og Mia Lindenhann en fjölmargir aðrir leggja verkefninu lið. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu verkefnisins hér: www.anersaaq.com

Byggðasafnið hefur hlotið styrki fyrir verkefnið frá Safnaráði, Uppbyggingasjóði Suðurlands og JÁVerk auk þess að fá ómetanlegan stuðning frá Eimskip.  Verkefnið á alþjóðavísu er styrkt m.a. af Kulturkontakt Nord og NAPA.

til hjemmeside ovenforMyndin sem fylgir er samsett mynd sem gefur hugmynd um hvað gestir eiga von á að sjá. Sjón er þó sögu ríkari og verður spennandi að bjóða gestum uppá þennan gjörning.