Jólatré á heimaslóðum
Jólatré á heimaslóðum
Hið merka jólatré frá Hruna í Hrunamannahreppi sem Byggðasafn Árnesinga varðveitir fór þessi jólin aftur í sína heimasveit. Í tilefni af 150 ára afmæli Hrunakirkju var jólamessan með sérlegum glæsibrag og þar fékk gamla spýtutréð virðingarsess. Jólatréð var skreytt lyngi á hefðbundin hátt og kertaljósin voru tendruð meðan messað var á jóladag.
Prestfrúin í Hruna árið 1873 var hin danska Kamilla Briem gift sr. Steindóri Briem. Hún fékk bóndann á Þverspyrnu Jón Jónsson til að smíða fyrir sig þetta veglega spýtujólatré samkvæmt danskri fyrirmynd. Tréð hefur verið einstakt á Íslandi hátt og breitt um sig svo ekki hefur það passað nema í stóra stofu. Tréð barst safninu árið 1955 að gjöf frá Elín Steindórsdóttir í Oddgeirshólum dóttur Kamillu og Steindórs. Þetta var í fyrsta sinn sem tréð fer í heimsókn á sinn upprunastað og var sérlega ánægjulegt að vita til þess að einn gesta á jólamessunni var Ólöf Elísabet Árnadóttir dóttir Elínar. Ólöf man vel eftir trénu frá sínum uppvaxtarárum í Oddgeirshólum.
Í dag telst tréð elsta varðveitta spýtutré landsins og það er sett saman ár hvert og skreytt fyrir jólasýningu safnsins í Húsinu á Eyrarbakka. Fastur liður í jólaundirbúningi á safninu er þess vegna vetrarferð út í móa til að safna krækiberjalyngi, sortulyngi og öðrum kjarrgróðri. Jólatréð er afar viðkvæmur safngripur sökum aldurs en það varð 142 ára gamalt á nýliðnu ári og er þess vegna aðeins 8 árum yngra en Hrunakirkja.
Meðfylgjandi eru ljósmyndir frá messunni á jóladag í Hrunakirkju. Efst er ljósmynd af jólatrénu ásamt Ólöfu Árnadóttur frá Oddgeirshólum. Þá ljósmynd af Mörtu Esther Hjaltadóttur formanni sóknarnefndar að kveikja á trénu og sú þriðja af sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni ásamt trénu. Ljósmyndirnar tók Magga Brynjólfsdóttir á Túnsbergi.