Fjölmenni sótti afmælishátíð Hússins á Eyrarbakka
Fjölmenni sótti afmælishátíð Hússins á Eyrarbakka
Sunnudaginn 9. ágúst 2015 var haldið upp á 250 ára afmæli Hússins á Eyrarbakka.
Mannfjöldi fór að safnast í Húsið upp úr hálf tvö, rétt fyrir tvö var ákveðið að halda dagskrána í Eyrarbakkakirkju og fóru allir þangað.
Þar fluttu erindi Lýður Pálsson safnstjóri sem stýrði dagskránni, Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson sem las upp vel valda texta, Valgeir Guðjónsson söng og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir greindi frá Guðmundi Thorgrímsen forföður sínum og hans fjölskyldu og niðjum sem voru í Húsinu 1847-1930. Halldór Blöndal flutti erindi um hjónin í Háteigi sem keyptu Húsið 1932. Sigurgeir Hilmar las upp ljóðið Húsið eftir Guðmund Daníelsson og Guðmundur Ármann Pétursson greindi frá því hvernig var að alast upp í Húsinu.
Þá ávörpuðu samkomuna Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Ari Björn Thorarensen formaður Héraðsnefndar Árnesinga og Arna Ír Gunnarsdóttir formaður fagráðs Byggðasafns Árnesinga sem sleit dagskránni og bauð gestum að ganga í Húsið og hlýða þar á tónlist og þiggja veitingar.
Hlín Pétursdóttir söngkona, Jón Sigurðsson píanóleikari, Bryndís Björgvinsdóttir sellóleikari og Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari sáu um tónlistardagskrá í stássstofu Hússins þar sem leikin var tónlist tengd Húsinu.
Gestir snæddu veitingar og meðal annars var stór afmælisterta sem Guðnabakarí á Selfossi á heiðurinn af.
Dagskráin var vel sótt og gleði ljómaði af hverju andliti þrátt fyrir þrengsli en talið er að um 200 manns hafi sótt samkomuna.
Hátíðin var styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.