Góð heimsókn frá Washington-eyju

Góð heimsókn frá Washington-eyju

15/07/2015

Húsið á Eyrarbakka fékk góða heimsókn fimmtudaginn 11. júní sl.  Þá voru á ferð Richard Purington og fjölskylda, en kona hans er Vestur-Íslendingurinn Mary Purington fædd Ricther, afkomandi Árna Guðmundssonar frá Litla-Hrauni sem fór vestur um haf árið 1870 í fyrsta hópnum sem fór frá Íslandi. Fjölskyldan er búsett á Washington-eyju á Michigan-vatni og reka þar ferjufyrirtæki milli eyjar og lands. Ein ferjan heitir Eyrarbakki og var tekin í notkun 1973. Til að gefa ferjunni nafn á sínum tíma var vatn sótt yfir hafið í brunn á Eyrarbakka.Purington

Purnington-fjölskyldan skoðaði söfnin  og Hildur Hákonardóttir sýndi þeim sérstaklega nýja sýningu um Vesturferðir frá Suðurlandi. Snæddur var léttur hádegisverður í Kirkjubæ. Þar afhenti  Hulk Purington sonur Richards safninu gamlan björgunarhring af ferjunni Eyrarbakki. Björgunarhringurinn sem kyrfilega er merktur nafni ferjunnar er til sýnis í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka.