Frúin í Húsinu Eugenia Th. Nielsen

Frúin í Húsinu Eugenia Th. Nielsen

19/06/2015

BAM 1995 54Fjölskyldan í Húsinu á Eyrarbakka gegndi forystuhlutverki í margvíslegum framfaramálum á vaxtarskeiði Eyrarbakka á áratugunum kringum 1900. Á meðan karlmennirnir unnu við verslunina sátu konurnar heima en létu sér ekki nægja að sinna heimilishaldi. Konur Hússins á Eyrarbakka voru í fararbroddi í menningarlífinu. Þær voru fjórar sem urðu þekktar, frú Sylvía Thorgrímsen, dóttir hennar Eugenía Nielsen og dætur hennar Guðmunda og Karen Nielsen. Þekktust þeirra var Eugenia Nielsen fædd Thorgrímsen sem var húsfreyja í Húsinu 1887 til 1910.

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 19. júní 2015 er við hæfi að minnast hennar í nokkrum orðum.

Eugenia Nielsen var fædd í Húsinu árið 1852 og ólst þar upp. Um skeið í æsku dvaldi hún hjá Jóni Hjaltalín landlækni og frú Karenu Jakobine í Reykjavík. Hún var búsett á Eyrarbakka mestalla sína ævi. Sem fyrr segir giftist hún Peter Nielsen árið 1880 og urðu þau húsráðendur í Húsinu í ársbyrjun 1887 þegar Peter Nielsen varð verslunarstjóri.

Eugenia Nielsen varð forgöngukona um stofnun Kvenfélagsins á Eyrarbakka árið 1888 og fyrsti formaður þess. Hún studdi með ráðum og dáð kirkjubyggingu á Eyrarbakka um 1890. Hún beitti sér fyrir stofnun spítala á Eyrarbakka og skrifaði greinar í blöð því til stuðnings. Hún ásamt manni sínum var áberandi í templarastarfi á Eyrarbakka. Árið 1907 skipulagði hún móttöku fyrir komu Friðriks 7. Danakonungs þegar hann átti leið um Ölfusárbrú við Selfoss. Var móttakan rómuð fyrir glæsileika.

Frú Nielsen var húsmóðir á einu þekktasta heimili landsins. Gestrisnin var alþekkt og gestakomur tíðar enda var ekkert eiginlegt gistihús á Eyrarbakka. „Um allt varð að hugsa: Allt frá því að skemmta biskupi eða landshöfðingja með ljóðum og söng til þess að þurrka plögg og sokka af lestadreng austan úr Skaftafellssýslu.“

Gott dæmi um ráðsmennsku hennar var síðasta óskin sem var þessi: „Gætið þess að draga upp íslenska fánann, þegar ég er farin.“

Hún dó 9. júlí 1916 rúmu ári eftir að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Grafreitur hennar er í Eyrarbakkakirkjugarði.

Meðfylgjandi mynd Láru Ólafsdóttur ljósmyndara sýnir Eugeniu Nielsen ásamt Karen og Guðmundu dætrum sínum og nágranna þeirra í íslenskum peysufötum Halldóru Guðmundsdóttur í Kirkjuhúsi, síðar Halldóra Andersen. Ljósmyndin er tekin um 1895.