Konur, skúr og karl

Konur, skúr og karl

08/05/2015

BAM 1995 54Sumarsýning Byggðasafns Árnesinga opnar í borðstofu Hússins sunnudaginn 17. maí kl. 16. Þar er fjallað um þrjá ljósmyndara sem störfuðu á Stokkseyri á árunum kringum aldamótin 1900. Þetta eru þau, Margrét Árnason Möller, Lára Ólafsdóttir og Ingimundur Eyjólfsson. Á sýningunni er varpað ljósi á starfsferil þeirra þriggja og sýnishorn af ljósmyndum þeirra frammi. Sýningin er sérstaklega tileinkuð 100 ára kosningarétti kvenna.

Sýningin verður opnuð á Íslenska safnadeginum. Íslenski safnadagurinn er nú í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur í tengslum við alþjóðlega safnadaginn 18. maí, og fer fram sunnudaginn 17. maí 2015.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn að frumkvæði Alþjóðaráðs safna ICOM 18. maí ár hvert. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti frá árinu 1977 um allan heim. Yfirskrift dagsins er að þessu sinni „söfn í þágu sjálfbærni“ en ein af helstu áskorunum samtímans er að þróa lifnaðarhætti sem stuðla að verndun náttúruauðlinda, aukinni samvinnu og sjálfbærni samfélaga. Í tilefni Íslenska safnadagsins er ókeypis aðgangur í söfnin á Eyrarbakka.

Meðfylgjandi ljósmynd er tekin af Láru Ólafsdóttur og sýnir Eugeniu Th. Nielsen faktorsfrú í Húsinu ásamt dætrum sínum Guðmundu og Karenu og Halldóru Guðmundsdóttur úr Kirkjuhúsi sem er í íslenskum peysufötum. Myndin er tekin um aldamótin 1900.

Sýningin er styrkt af Safnasjóði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.