Eyrún Óskarsdóttir sýnir vatnslitamyndir í Eggjaskúrnum

Eyrún Óskarsdóttir sýnir vatnslitamyndir í Eggjaskúrnum

08/08/2014

Íeyrun Eggjaskúrnum við Húsið á Eyrarbakka hefur verið sett upp sýning á vatnslitamyndum eftir Eyrúnu Óskarsdóttur frá Hjallatúni á Eyrarbakka. Sýningin stendur dagana 9.-16. ágúst og er opin á opnunartíma safnanna á Eyrarbakka frá kl. 11 til 18.

Eyrún segir sjálf frá: „Sem barn var ég alltaf að teikna og lita, krotaði á öll blöð og pappíra sem hönd á festi og þegar fram liðu stundir dreymdi mig um að verða myndlistarkona. Einhvern veginn æxluðustu hlutirnir nú á annan veg. Síðan þá hef ég farið kringum þennan draum eins og köttur um heitan graut, lauk námi við Kennaraháskólann með myndmenntakennslu sem aðalvalgrein (1996) lauk síðan grunnmenntun í listfræði í HÍ (2008) og MA gráðu í listasögu í Danmörku (2011). Ég hef í sjálfu sér ekki hlotið formlega menntun í myndlist, en hef sótt ýmiss námskeið og þess háttar bæði hér á landi og í Danmörku. Að mestu leyti er ég því sjálfmenntuð og dunda mér við að mála og teikna af einskærri sköpunargleði. Þetta er ósköp hefðbundin „natúralísk“ myndlist sem hér er fram borin sem er vel við hæfi í þessu húsi og á aldamótahátíð, því í upphafi 20. aldar höfðu Íslendingar almennt haft lítil kynni af framúrstefnulegri list sem þá var að ryðja sér til rúms í Evrópu.“