Beitningaskúrinn opnaður til sýningar
Beitningaskúrinn opnaður til sýningar
Í nóvemberbyrjun var Beitningaskúrinn við Óðinshús opnaður til sýningar. Beitningaskúrinn var byggður 1925 á blómaskeiði vélbátaútgerðar á Eyrarbakka. Það var aðgerðahús, netaverkstæði og einnig var þar beitt. Hin svonefnda Austurbryggja eða Heklubryggja var fyrir neðan Beitningaskúrinn en hann stóð í röð margra slíkra húsa sem einu nafni nefndust Byrgin.
Sýningin vekur athygli á sögu Beitningaskúrsins, vélbátaútgerðar á Eyrarbakka og einnig er sagt frá vinnuaðferðum og sögum frá þeim sem þar unnu. Þar var síðast beitt um 1960. Beitningaskúrinn var gefinn Sjóminjasafninu á Eyrarbakka 1991. Hann var gerður upp með styrk frá Húsafriðunarsjóði á árunum 1992 og 1993. Við viðgerðina kom í ljós útflattur bátur á vesturhlið hans og var ákveðið að hafa hann sem ystu klæðingu á þeim vegg. Vekur Beitningaskúrinn því mikla athygli fyrir sérstakt útlit.
Ráðgjafar við uppsetningu sýningarinnar voru Finnur Arnar og Þórarinn Blöndal. Beitningaskúrinn er opinn eftir samkomulagi við safnstjóra Lýð Pálsson, í síma 891 7766.