Garðálfar frá Laugarvatni í Húsinu á Eyrarbakka
Garðálfar frá Laugarvatni í Húsinu á Eyrarbakka
Páska- og vorsýning safnsins er ljósmyndasýningin „Ef garðálfar gætu talað“ en þar gefst gestum tækifæri til að horfa inn í veröld þeirra sem byggðu sér sælureit í hjólhýsabyggð á Laugarvatni. Ljósmyndararnir Þórdís Erla Ágústsdóttir og Sigríður Rut Marrow mynduðu þetta sérstæða samfélag í þrjú sumur. Frá þjóðveginum sást aðeins þyrping hjólhýsa á grónu svæði en þegar inn var komið blasti við margbrotið samfélag; allkyns hýsi, garðpallar, blóm og íbúarnir sjálfir að ógleymdum garðálfunum. Litríkar myndir sýna samveru, sumar og sælu.
Sigríður og Þórdís hafa í sínum verkum gjarnan lagt áherslu á að mynda jaðarmenningu og hverfandi samfélög. Í dag er hjólhýsabyggðin á Laugarvatni aflögð og heimildargildi myndaseríunnar dýrmætt.
„Ef garðálfar gætu talað“ er farandssýning frá Þjóðminjasafni Íslands en þar var sýningin haldin á nýliðnum vetri.
Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. mars kl. 14.00 og stendur fram í lok maí. Páskaopnun safnsins er alla daga frá 23. mars – 1. apríl kl. 13 – 17. Í apríl er safnið opið allar helgar kl. 13 -17 og í maí hefst sumaropnun. Tekið er á móti hópum samkvæmt samkomulagi.