Nemendur Flóaskóla skreyttu safnatrén í ár

Nemendur Flóaskóla skreyttu safnatrén í ár

22/12/2022

Ómissandi hluti af upptakti jólanna á Byggðasafni Árnesinga er samtarf safnsins og skóla í nærsamfélaginu. Í ár var unnið með nemendum 1.-4. bekkjar í Flóaskóla og er óhætt að segja að samstarfið hafi verið gjöfult.

Ragnhildur, safnvörður, heimsótti hópana í nóvember og afhenti þeim þjár eftirgerðir af jólatré frá Miðengi úr safneign. Við það tilefni var spjallað um jólin fyrr og nú, og hvað einkenndi hátíðina. Það stóð ekki á svörum áhugasamra nemenda og var stundin notaleg, fróðleg og skemmtileg.

Krakkarnir fengu síðan frjálsar hendur og sem betur fer, þau fengu frábærar hugmyndir og höfðu ýmis góð gildi að leiðarljósi eins og endurnýtingu og hringrás hluta. Flóaskóli er Grænfánaskóli og lögðu nemendur mikið upp úr því að búa til skraut úr náttúrulegum efnivið, líkt og gert var í eina tíð. Kennararnir Hallfríður Ó. Aðalsteinsdóttir, Íris Grétarsdóttir og Unnur Bjarkadóttir stýrðu verkefninu og urðu trén uppspretta ýmissa vangaveltna um ótal margt sem tengist jólum og jólahaldi. Eitt tré var skreytt með jólakúlum sem geymdu samsett jólaorð og minnir hver kúla í raun á gömlu myndadagatölin, þar var efniviðurinn gömul jólakort. Annað tré var skreytt með efnivið sem nemendur höfðu safnað í skógarferð. Það þriðja var síðan helgað eplum og appelsínum á afar snjallan hátt. 

Trén voru síðan sett upp á jólasýningu safnsins og nutu sín vel innan um gömlu jólatrén. Byggðasafn Árnesinga á úrval jólatrjáa, þar á meðal elsta varðveitta spýtujólatré landsins og aðra sannkallaða gullmola.

Verkefnið „Jólatré í skólastofu“ er nú unnið í þriðja sinn en áður hefur safnið fengið til samstarfs við sig nemendur úr Vallaskóla og Menntaskólanum að Laugarvatni með stórskemmtilegum afrakstri. Það verður spennandi að sjá hvert trén fara að ári!