Drengurinn, fjöllin og Húsið
Drengurinn, fjöllin og Húsið
Ásgrímur Jónsson listmálari í Húsinu á Eyrarbakka
Á páskasýningu safnsins, Drengurinn, fjöllin og Húsið, er fjallað um æsku og unglingsár Ásgríms Jónssonar listmálara. Ásgrímur var fæddur og uppalinn í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Æskustöðvar hans höfðu djúp áhrif á hann, hinn víðfeðmi fjallahringur, ljós og skuggar árstíðanna, útilegumannasögur á vökunni og hljóðið í briminu eru aðeins örfá atriði sem fylgdu honum ævina á enda og voru brunnur endurminninga sem hann gat sífellt sótt í. Í Húsinu á Eyrarbakka var Ásgrímur vikapiltur um tíma. Fólkið í Húsinu sá þann efnivið sem í piltinum var og þar eignaðist hann sína fyrstu vatnsliti.
Sýningin verður opnuð 1. apríl næstkomandi og er hluti af afmælisþríleik Byggðasafns Árnesinga og Listasafns Árnesinga sem er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands. Þríleikurinn samanstendur af sýningunni Drengurinn, fjöllin og Húsið í borðstofu Hússins á Eyrarbakka, sýningunni Hornsteinn á Listasafni Árnesinga í Hveragerði og Ásgrímsleiðinni sem er rekur sig um söguslóðir Ásgríms með viðkomu á sýningum safnanna.
Byggðasafnið fagnar á árinu 70 ára afmæli og Listasafn Árnesinga fagnar 60 ára afmæli. Arfleið Ásgríms listmálara, sveitadrengsins úr Árnessýslu finnst í báðum söfnum. Upplýsingar um sýningarnar og Ásgrímsleiðina verður hægt að nálgast á heimasíðum safnanna og samfélagsmiðlum.
Við bjóðum alla velkomin á sýningaropnun kl. 15.00 laugardaginn 1. apríl í Húsinu á Eyrarbakka.
Ljósmynd: Ásgrímur með vatnsfötur fyrir norðan Húsið árið 1890. Ljósmyndina tók kaupmannsfrúin Oline Lefolii.