Danska fánanum flaggað

Danska fánanum flaggað

12/07/2012

upptakaÞað var ekki laust við að vegfarendur um Götuna á Eyrarbakka rækju upp stór augu í gær 11. júlí. Búið var að flagga danska fánanum, Dannebrog, við Húsið og Eyrarbakkakirkju. Austan við Húsið gaf að líta eftirlíkingu Sverris Andréssonar á Selfossi af Thomsen-bílnum sem ekið var á Eyrarbakka árið 1904. Þarna voru á ferð Eggert Þór Bernharðsson prófessor við Háskóla Íslands og Ármann Gunnarsson djákni sem vinna að tilraunaverkefninu Fréttaskot út fortíð. Það gengur út á að búa ýmis atvik úr fortíðinni í búning nútímasjónvarpsfrétta. Alls verða fréttirnar tíu í þessari umferð og eru þeir búnir að taka fimm; spænska veikin í Reykjavík 1918 (tökustaður: Árbæjarsafn), kvenréttindabarátta 1888 (Árbæjarsafn), galdrabrennur á Ströndum 1654 (Kotbýli kuklarans Bjarnarfirði), vinnumaður losnar úr vistarskyldu 1891 (Ósvör við Bolungarvík) og fyrsti bíllinn á Íslandi 1904 við Húsið á Eyrarbakka. thomsenbill2Einnig verður sagt frá og rætt við konu sem komst undan í Tyrkjaráninu 1627 í Vestmannaeyjum. Og svo verður haldið áfram með fleiri spennandi fréttir úr fortíðinni.

Meðfylgjandi ljósmyndir eru frá tökunum.  Fréttaskotið við Húsið fjallar um komu Thomsen-bílsins til Eyrarbakka 1904 og fólk á vettvangi er spurt álits á þessari nýju tækni, Guðrún Jónsdóttir sem leikin er af Sigríði Hafsteinsdóttur (Hafliðasonar) mælir þessari nýju tækni bót en Jón Jónsson sem leikinn er af Lýði Pálssyni safnstjóra hallmælir mótorvagninum á allan hátt. Sverrir Andrésson leikur bílstjórann.

Stefnan er að birta fréttaskotin á YouTube síðsumars eða með haustinu og veita öllum heiminum aðgang. Þetta verður því til frjálsra afnota án endurgjalds og vonandi tekst verkefnið vel.

EThBMeðfylgjandi ljósmyndir tóku Björn Ingi Bjarnason og Eggert Þór Bernharðsson.