Íslenski safnadagurinn 2012

Íslenski safnadagurinn 2012

01/07/2012

skuliÍslenski safnadagurinn verður sunnudaginn 8. júlí í ár. Söfn hafa almennt boðið upp á ókeypis aðgang á þessum degi, sem nýttur hefur verið til að kynna blómlegt, mikilvægt og metnaðarfullt starf íslenskra safna.  Yfirskrift dagsins er líkt og fyrri ár „fyrir fjölskylduna“ og bjóða söfn á einhvern hátt og eftir því sem við á upp á dagskrá sem hentar allri fjölskyldunni.

 

 

Dagskrá safnanna á landsvísu má finna á slóðinni www.safnarad.is en hér að neðan er dagskrá Byggðasafns Árnesinga.

Dagskrá safnanna á Eyrarbakka og Stokkseyri á Íslenska safnadeginum 8. júlí 2012 

Húsið á Eyrarbakka – Byggðasafn Árnesinga           Opið 11-18
Sjóminjasafnið á Eyrarbakka                                 Opið 11-18
Rjómabúið á Baugsstöðum                                   Opið 13-18
Þuríðarbúð á Stokkseyri                                       Opin allan daginn

 

Dagskrá 

11-17:  Húsið á Eyrarbakka: Sunnlendingar á Ólympíuleikum. Sýning í borðstofu í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðinn. Ljósmyndir og munir frá ferðum sunnlenskra íþróttagarpa á Ólympíuleika í gegnum tíðina. Hvað hefur Vésteinn Hafsteinsson farið á marga Ólympíuleika?  Hvað kastaði Sigfús Sigurðsson sleggjunni langt í London 1948? Þessu og mörgu öðru er svarað á sýningunni. Ókeypis aðgangur á safnadaginn.

11-17:  Sjóminjasafnið á Eyrarbakka: Draumur um bát.  Skipasmíðaverkfæri, skipslíkön og ljósmyndir af ungum og öldnum skipasmiðum á örsýningu í forsal Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka. Ókeypis aðgangur á safnadaginn.

13-18:  Rjómabúið á Baugsstöðum:  Aldargamalt rjómabú með upphaflegum vélum og áhöldum sem framleiddi „Danish butter“ frá 1905 til 1952. Rjómabúið á Baugsstöðum er opið laugardaga og sunnudaga kl. 13-18 í júlí og ágúst. Aðgangseyrir 500 kr..

11:  Húsið á Eyrarbakka: Í túni kaupmannsins. Lýður Pálsson safnstjóri leiðir leiðsögn um Húsið og nágrenni þess og greinir frá gamla búsetulandslaginu.  Hvað eru margir brunnar við Húsið?  Hvað leynist undir yfirborði hólanna tveggja í garði Hússins? Af hverju var Húsinu valinn þessi staður? Hvar byrjar og endar Búðarstígur?

14:  Húsið á Eyrarbakka: Tónlistardagskrá í stássstofunni. Heimsókn frá Merkigili á Eyrarbakka. Unga söngparið Jón Tryggvi og Unnur flytja nokkur lög í stássstofunni.

Þuríðarbúð á Stokkseyri: Sjóbúð með gamla laginu, reist til minningar um Þuríði Einarsdóttur formann, er opin allan daginn.

Mynd með fréttatilkynningunni tók Lýður Pálsson á mánudaginn var af tveimur upprennandi safnagestum og blesóttum fola í tamningu hjá Skúla Steinssyni við leikvöllinn hjá Sjóminjasafninu.  Í baksýn er Húsið á Eyrarbakka.