Vetrarfréttir af Byggðasafni Árnesinga

Vetrarfréttir af Byggðasafni Árnesinga

05/03/2020

Yfir háveturinn er safnið opið eftir samkomulagi og tekið á móti hópum stórum og smáum, erlendum sem innlendum. Opið verður um páskana og svo hefst sumaropnun 1. maí. Kastljósinu er yfir vetrartímann beint að innri málum safnanna og er þar af nógu að taka um þessar mundir.

Stjórn Byggðasafns Árnesinga fundaði þann 14. janúar sl. og var fundarefnið margvíslegt. Þar var meðal annars fjallað um ráðningu nýs safnvarðar en Linda Ásdísardóttir réð sig til Þjóðminjasafns Íslands í haust. Í fundargerð segir: „Staða safnvarðar. Starfið var auglýst í fjölmiðlum í byrjun nóvember með umsóknarfresti til 1. desember. Það bárust 25 umsóknir. Sex vel hæfum umsækjendum var boðið viðtal við safnstjóra. Stjórn safnsins var á meðan á ferlinu stóð haldið upplýstri um stöðu mála. Ákveðið var að bjóða Ragnhildi Elísabetu Sigfúsdóttur íslenskufræðingi og nema í safnafræði starfið og mun hún koma til starfa 2. mars næstkomandi. Stjórn Byggðasafns Árnesinga staðfestir ráðninguna og býður Ragnhildi velkomna til starfa.“

Einnig var fjallað um starfsemina núna yfir vetrartímann og í fundargerð segir: „Verkefni sem unnið er að um þessar mundir. Lýður Pálsson safnstjóri kynnti helstu verkefni safnsins. Hann starfar einn á safninu um þessar mundir nema að því leyti að lausráðnir starfsmenn hafa verið við gæslu og leiðsögn í október og á jólasýningu. Jafnframt er lausráðinn starfsmaður að vinna að skönnun ljósmynda fyrir gagnagrunninn Sarp. Jóladagskrá safnsins var með hefðbundnu sniði og vel sótt. Þorrasýning verður fyrir leikskóla á þorra. Verið er að leggja drög að sýningum ársins og verður það kynnt er nær dregur. Mikill tími safnstjóra hefur farið í að sinna málefnum Búðarstígs 22 og er Þjóðminjasafn Íslands búið að koma tækniminjum sínum fyrir í nyrðri hluta skemmunnar. Fljótlega verður farið að flytja gripi úr Mundakotsskemmu og Hafnarbrú 3 í syðri hluta skemmunnar með aðstoð lausráðinna starfskrafta. Nýr safnvörður kemur til starfa mánudaginn 2. mars og mun þá innra starf safnsins eflast aftur.“

Lokið er flutningum úr Mundakotsskemmu í Búðarstíg 22. Eftirfarandi klausa birtist á Facebook-síðu safnsins þegar flutningarnir voru í fullum gangi og hljóðar svo: „Um þessar mundir er verið að tæma Mundakotsskemmu af munum sem hafa verið þar í marga áratugi. Þar á meðal hefur verið þar Ford 1942 sem fyrrum var í eigu Ólafs heitins Guðjónssonar í Mundakoti. Þessi mynd var tekinn í dag 11. febrúar 2020 þegar Fordinn var að leggja af stað í ferð í gegnum þorpið í nýja og stærri aðstöðu að Búðarstíg 22 þar sem hann verður varðveittur í komandi framtíð. Sennilega hefur hann ekki verið hreyfður í 56 ár en 1964 eignaðist Ólafur í Mundakoti nýjan vörubíl og lagði þessum innst í skemmuna. Guðlaugur G. Jónsson og Emil Guðjónsson sjá um að flytja munina fyrir söfnin.“  Þessari fb-færslu var deilt af 12 aðilum og fékk 18.500 áhorf. Meðfylgjandi ljósmynd er af Fordinum þegar hann var kominn út úr gömlu skemmunni.

Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir kom til starfa 2. mars og hennar fyrsta verk fyrstu dagana er að kynna sér starfsemina og sögu Hússins á Eyrarbakka.

Öryggismál safnsins hafa verið í vinnslu. Ráðgjafafyrirtækið Lota ehf stýrir því ferli fyrir hönd safnsins. Öryggiskerfi í Húsinu á Eyrarbakka eru að verða 25 ára gömul og úr sér gengin. Er þessa dagana verið að skipta um skynjara og stjórnstöðvar og sér Árvirkinn um það verk.

Páskasýningin „Eyrarbakkamyndir Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns“ verður opnuð 4. apríl. Á sýningunni gefur að líta einstaka sýn á þorp í blóma á tímabilinu 1930 til 1960.

Sumarsýningin er einnig í vinnslu. Þar verður fjallað um Agnesi Lunn danska myndlistarkonu sem dvaldi á Eyrarbakka í upphafi 20. aldar.  Ásgerður Júníusdóttir listfræðingur er sýningarstjóri.