Jólasýning og skáldastund

Jólasýning og skáldastund

29/11/2019

Jólin koma brátt og byrjar jólagleðin ávallt með opnun jólasýningar og skáldastund í stássstofu Hússins. Sunnudaginn 1. desember býður safnið gesti velkomna. Á jólasýningunni skarta gömlu jólatrén sínu fegursta í borðstofu og í stássstofu má hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið koma fram: Sjón les úr skáldsögu sinni Korngult hár, grá augu, Einar Már Guðmundsson les úr ljóðabókinni Til þeirra sem málið varðar, Margrét Sveinbjörnsdóttir kynnir og segir frá 100 ára afmælisriti Kvenfélags Grímsneshrepps, Auður Hildur Hákonardóttir kynnir bók sína um biskupsfrúrnar í Skálholti, Harpa Rún Kristjánsdóttir kynnir og les úr verðlaunaljóðabók sinni Eddu og Guðmundur Brynjólfsson les úr skáldsögunni Þögla barnið. Þarna fá gestir brot af ólíkum ritsmíðum eftir fjölbreyttan hóp. Sjón og Einar Már eru meðal okkar fremstu skálda og jafnvígir á skáldsögur og ljóð, Margrét frá Heiðarbæ fjallar um hið aldargamla kvenfélag í Grímsnesi í veglegu afmælisriti en hún hefur víðar komið við á ritvellinum á þessu ári, Hildur spyr hvað sé svo merkilegt við að vera biskupsfrú, Harpa Rún er bóndi undir Heklurótum en hún hlaut fyrir skömmu verðlaun kennd við ljóðskáldið Tómas Guðmundsson og Guðmundur Brynjólfsson heldur áfram með trílógíu sína um Eyjólf Jónsson sýslumann. Það verður enginn bókaunnandi svikinn af skáldastund í Húsinu. Aðventukaffi er á boðstólum, allir velkomnir og frír aðgangur. Jólasýningin er opin sem og safnið allt frá kl. 14-17 en upplestur rithöfunda hefst kl. 16. Næstu tvær helgar verður opið á sama tíma, Björgvin orgelsmiður kemur 8. des. kl. 15 og spilar jólalög á lírukassann sinn og 15. des. kl. 15 kemur sönghópurinn Lóur og syngur jólalög.

Nánari dagskrá má sjá á Facebook „Húsið á Eyrarbakka – Byggðasafn Árnesinga“.  Verið velkomin.