Kyndilmessustund í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 2. febrúar
Kyndilmessustund í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 2. febrúar
Byggðasafn Árnesinga heldur upp á Kyndilmessu í Húsinu á Eyrarbakka laugardaginn 2. febrúar kl. 3. Dagskráin verður nokkuð óhefðbundin. Kristján Guðmundsson sálfræðingur hugleiðir efni skáldsögunnar Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson. Af hverju fremur manneskja glæp? Er einhver leið að útskýra ofbeldi? Eitraða barnið gerist á Eyrarbakka um aldamótin 1900 og ætlar Kristján að veita gestum sálfræðilega innsýn í efni bókarinnar fyrir gesti. Að loknu erindi Kristjáns syngur Hafsteinn Þórólfsson söngvari við undirleik Ásgeirs Ásgeirssonar gítarleikara nokkur lög.
Í upphafi dagskrár verður í stuttu máli sagt frá Kyndilmessunni. Kyndilmessa, hreinsunarhátíð Maríu meyjar, er 40 dögum eftir fæðingu Krists sem ber upp á 2. febrúar ár hvert. Þá er mikil ljósadýrð við kaþólska guðþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið Kyndilmessa þaðan upprunnið segir í Sögu Daganna eftir Árna Björnsson.
Stundin hefst kl. 3, boðið verður upp á kaffi að lokinni dagskrá og aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.