Gamla jólatréð skreytt
Gamla jólatréð skreytt
Nemendur 10. bekkjar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri komu í heimsókn í morgun 27. nóvember og skreyttu eftirlíkingu af elsta jólatré landsins, jólatrénu frá Hruna sem Jón Jónsson í Þverspyrnu smíðaði fyrir prestfrúna Kamillu Briem árið 1873.

Skreytingin gekk mjög vel. Safnstjóri fór á mánudag upp í Snæfoksstaðaskóg og tíndi lyng til að skreyta með. Að verki loknu voru kakó og smákökur í boði. Síðan skoðaði hópurinn safnið. Meðfylgjandi ljósmynd sýnir hópinn ásamt jólatrénu.
Þessi heimsókn markar upphaf jóladagskrár Byggðasafns Árnesinga sem verður vissulega með óvenjulegu sniði vegna heimsfaraldurs í ár. Viðburðum verður streymt. Sjá www.byggdasafn.is – á forsíðunni er hnappurinn „Streymi“. Jóladagskráin öll er sjáanleg hér: www.byggdasafn.is/joladagskra-byggdasafns-arnesinga-2020/