Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga 2020

Jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga 2020

24/11/2020

Bókaupplestur, jólaævintýri, gráglettin jól, jólalög og jólasýning Hússins

Það verður nóg um að vera á aðventunni hjá Byggðasafni Árnesinga. Í Húsinu verða skáld, jólaævintýri, ljúfir jólatónar og gömlu jólin. Öllum viðburðum verður streymt á Facebooksíðu Byggðasafns Árnesinga og hér á heimasíðu safnsins.

Sunnudaginn 29. nóvember, klukkan 16:00. Skáldastund í streymi. Rithöfundar lesa úr nýútkomnum verkum sínum í Húsinu á Eyrarbakka. Vilborg Davíðsdóttir les úr skálsögu sinni Undir Yggdrasil, Pjetur Hafstein Lárusson segir frá ljóðabók sinni Undir mánans fölu sigð og fer með nokkur ljóð, Guðjón Friðriksson les úr riti sínu Samvinna á Suðurlandi I-IV, Eyrún Ingadóttir les úr skáldsögu sinni Konan sem elskaði fossinn, Guðmundur Brynjólfsson les úr verki sínu um Eyjólf sýslumann Síðasta barnið og Guðrún Guðlaugsdóttir les upp úr glæpasögu sinni Hús harmleikja en sögusviðið er Eyrarbakki.

Þriðjudaginn 1. desember, klukkan 10:00. Ævintýrið um Augastein. Leikarinn og rithöfundurinn Felix Bergsson rifjar upp jólasögu sína „Ævintýrið um Augastein“. Viðburðinum verður streymt og eru nemendur í leik-og grunnskólum hvattir til að fylgjast með.

Alla aðventuna birtir safnið einn upplestur á dag á heimasíðu safnsins en jólasagan er í formi jóladagatals sem gaman er að sameinast um að fylgjast með á aðventunni. 

Sunnudaginn 6. desember, klukkan 14:00. Gömul og gráglettin jól. Eva María Jónsdóttir stjórnar fjölskyldustund fyrir unga og aldna í Húsinu þar sem í forgrunni verða hin gráglettnu jól og þræðir úr jólum fortíðar.

Sunnudaginn 20. desember klukkan 14:00. Sönghópurinn Lóurnar kemur og syngur undurfögur jólalög.

Jólasýning Byggðasafns Árnesinga verður opin frá 14:00 – 17.00 þann 29. nóv. og helgarnar 5.-6. des. og 12.-13. des. Aðgangur ókeypis. Í safnbúð verða kærleikskúla og jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til sölu og rennur allur ágóði sölunnar til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.  

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.