Drengurinn, fjöllin og Húsið – fræðsluverkefni um Ásgrím Jónsson

Fyrir öll skólastig

Ásgrímur Jónsson, einn af fyrstu atvinnulistmálurum þjóðarinnar, var fæddur 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Ásgrímur skildi eftir sig góðar heimildir um æskuár sín og uppvöxt í Flóanum og lýsingu á tíma sínum í Húsinu á Eyrarbakka og er ævi hans og endurminningar prýðis efniviður í fræðslu sem fylgir sömu lögmálum og bókmenntakennsla. Saga Ásgríms af hans uppvaxtarárum í Flóanum er hrífandi saga af drengnum Ásgrími Jónssyni, æskuheimili hans, fólkinu í samfélaginu, um lífið og tilveruna, og um álfana, tröllin og fjöllin. Þetta er saga drengs sem fylgdi hjartanu og gerði sín hugðarefni að ævistarfi.

Það er valdeflandi að þekkja sögu sinnar heimabyggðar og þess vegna mikill fengur að geta boðið skólahópum í héraðinu upp á fræðsluverkefni um Ásgrím. Í lífsgildum Ásgríms má finna kjarna sem á erindi við ungt fólk í dag. Meðal þess sem hafði sterk áhrif á piltinn Ásgrím voru sögurnar sem voru sagðar á vökunni, sem var sá tími frá því ljós var kveikt og þar til farið var að hátta, tilvist útilegumanna, þjóðsögurnar, huldufólkið og álfarnir, náttúran, veðrið, fólkið og fjöllin. Í endurminningum Ásgríms kemur fram að allt orkaði afar sterkt á hann í bernsku og hann lýsir upplifunum sem einkennast af því sem sjálfsagt kallast núvitund í dag, að kjarna sig. Hann virðist alla tíð hvíla vel í sjálfum sér og vera næmur á umhverfi sitt og tilfinningar. Ásgrímur leitaði í menningararf þjóðarinnar í listsköpun sinni, þjóðsögurnar og ævintýrin fylgdu honum alla tíð og eftir hann liggja ótal myndir sem byggja á þessum grunni.

Efniviðurinn Ásgrímur sem drengur og ungur maður getur verið uppspretta fjölbreyttra verkefna. Nú hafa verkefni á vegum safnsins farið inn í Fjölbrautaskóla Suðurlands, annars vegar sem ör-sýning til myndlistardeildar skólans og hins vegar inn í bókmenntakennslu á þriðja þrepi í íslensku. Þar unnu nemendur með textabrot úr endurminningabókinni, settu verk Ásgríms í samhengi við rómantísku stefnuna með því að líta á efnistök hans, skoða myndir sem byggja á menningararfi þjóðarinnar, þjóðsögum, álfum, tröllum og náttúru landsins. Verkefni á safninu tengd vikapiltinum Ásgrími og Húsinu og elsta bóndasyninum í kotinu í Flóanum eru hrífandi og marglaga. Þau er hægt að útfæra fyrir allan aldur og spila á ýmsa þræði mennskunnar með textum, myndum, skapandi verkefnum í smiðju safnsins sem og verkefnum sem bjóða upp á það að nemendur setji sig á einhvern hátt í spor Ásgríms.

(RES)