Söguganga um Eyrarbakka laugardaginn 17. september

sep 13, 2016

Minjar og mannlíf stór auglýsing copySögufélag Árnesinga býður upp á sögugöngu um Eyrarbakka með Magnúsi Karel Hannessyni laugardaginn 17. september kl. 14. Saga Eyrarbakka nær aftur til landnáms og verður stiklað á stóru í þeirri löngu sögu í stuttri gönguferð um hluta þorpsins. Fjallað verður um mikilvægi Eyrarbakka sem aðalhafnar Sunnlendinga um aldir, um verslunina sem spratt upp af höfninni, þéttbýlismyndunina og sögu einstakra húsa sem á vegi verða. Lagt verður af stað frá félagsheimilinu Stað.

Laugardaginn 17. september næstkomandi verður haldið upp á Evrópsku menningarminjadagana hérlendis  og er sögugangan liður í honum.

Menningarminjadagar eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu, allt frá Aserbæsjan í austri, til Portúgals í vestri og norður til Noregs. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Þema ársins 2016 er „Minjar og mannlíf“. Nánar má fræðast um viðburði í einstökum löndum á www.europeanheritagedays.com.

Laugardaginn 17. september n.k. verður blásið til menningarminjadags hér á landi og boðið verður upp á fjölbreytta viðburði víðs vegar um land, sem tengjast á einn eða annan hátt mannlífi, minjum og sögu. Allir viðburðirnir eiga það sameiginlegt að vera í höndum fyrirmyndaraðila sem starfa með menningarminjar. Nánar má fræðast um dagskrána á www.minjastofnun.is.