Ljúf og notaleg jóladagskrá í Byggðasafni Árnesinga

nóv 17, 2023

Aðventan er alltaf hátíðleg í Húsinu á Eyrarbakka þar jólaandinn ræður ríkjum og hæfileikafólk kemur í heimsókn með bókaupplestur og ljúfa tónlist. Gestir njóta þess að skoða jólasýninguna okkar, taka þátt í jólaleik og setjast niður og föndra músastiga. Í safnbúð verður kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til sölu og rennur allur ágóði sölunnar til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Jólasýning safnsins opnar í Húsinu á Eyrarbakka sunnudaginn 26. nóvember og svo verður opið tvær næstu helgar.  

Safnið er opið fyrir hópa eftir samkomulagi allt árið. Hægt er að panta séropnun með tölvupósti á info@byggdasafn.is eða í síma 483 1504 /483 1082.

Dagskrá:

Jólasýning

Jólasýning safnsins verður opin kl. 13 – 17 sunnudaginn  26. nóv. og helgarnar 2.-3. des. og 9.-10. des. Aðgangur ókeypis og opin músastigasmiðja alla daga. Meðal sýningagripa er spýtujólatré frá Hruna sem talið er elsta varðveitta jólatré landsins.

Skáldastund

Sunnudaginn 26. nóvember, kl. 16, lesa rithöfundar úr nýútkomnum verkum sínum í stássstofunni. Í ár heimsækja Húsið þau Jónína Óskarsdóttir, Lilja Árnadóttir, Nanna Rögnvaldardóttir, Ófeigur Sigurðsson og Sölvi Björn Sigurðsson.

Stofutónleikar

Sunnudaginn 3. desember, kl. 17, verða töfrandi stofutónleikar með Kiru Kiru í stássstofu Hússins. Jólaglugginn afhjúpaður og nýr bókstafur í jólaleiknum birtist.

Barnabókastund

Sunnudaginn 10. desember, kl. 16, munu Stjörnu-Sævar og Örn Árnason, afi allra landsmanna, leiða saman hesta sína. Það verður án efa líf og fjör!

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir jóladagskrá Byggðasafns Árnesinga.