Jólatré í stofu standa

Fyrir öll skólastig

Jólatré í stofu standa er skemmtilegt samstarfsverkefni safnsins við einn skóla úr héraðinu á aðventunni. Farið er með þrjár eftirgerðir af gömlu jólatré úr safneign í heimsókn í aðdraganda jóla. Úr verður sannkölluð jólastund og eru trén síðan skilin eftir hjá nemendunum sem skreyta trén í skólanum og skila í kjölfarið til okkar á safninu. Síðast fór verkefnið í Grunnskólann í Þorlákshöfn. Nemendur í 2. bekk tóku vel á móti starfsmanni safnsins, hlýddu á frásögn af jólum í torfbæ og hugleiddu gömlu jólin á Íslandi. Nemendur höfðu útbúið dásamlegt skraut sem gladdi gesti á jólasýningu byggðasafnins á aðventunni.

Verkefnið var unnið í fjórða sinn (2023). Áður fengu nemendur úr Flóaskóla eftirgerðirnar þrjár og skreyttu í anda endurnýtingar og hringrásarhagkerfis sem þau þekkja vel úr sínu skólastarfi. Þar áður fóru trén í Menntaskólanum að Laugarvatni þá höfðu nemendur í íslensku, skapandi skrifum, trén til innblásturs í textavinnu. Fyrsta árið fóru trén til 4. bekkjar í Vallaskóla og bjuggu nemendur til dásamlegt skraut úr gömlum glanspappír og engla úr pappír sem prýddu toppa trjánna.

Verkefnið er hluti af safnfræðslu Byggðasafnins og stendur til að láta trén ganga á milli skóla ár eftir ár og nýta tækifærið til fræðslu- og samverustunda sem hverfast um jólin fyrr og nú.

(RES)