Hljóðasögubeinin hans Lubba
Fyrir elstu börn í leikskóla og þau yngstu í grunnskóla
Á Byggðasafni Árnesinga er í dag litli-Lubbi eða safna-Lubbi. Hann á hljóðasögubein sem eru falin víðs vegar um safnið og safnasvæðið og hann kann vel að meta aðstoð frá ungum gestum safnsins. Beinin geyma sögur sem hverfast um ákveðin málhljóð en segja líka frá ýmislegu skemmtilegu sem tengist safninu, sögu þess og gripum. Fræðsluverkefnið byggir á efninu Lubbi finnur málbein sem margir þekkja og er hugsað til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Höfundar Lubba sem leitar málbeina eru þær Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir. Hljóðanám af þessu tagi eflir hljóðkerfisvitund barna og leggur þar með grunn að lestrarnámi og er ein af meginforsendum þessa. Í afar stuttu máli má segja að málhljóðin séu tengd upplifun sem auðveldar börnum að tileinka sér þau.
Verkefnið er stórskemmtilegt og eru hljóðasögubeinin á safninu átta talsins sem hafa verið samin, hönnuð og framleidd inn í umhverfi og sýningar safnsins. Hægt er að koma í heimsókn á safnið og leita beinanna eða fá beinin að láni og skila síðan í skemmtilegri heimsókn.
(RES)