Skáldastund, jólasýning og músastigar í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka
Skáldastund, jólasýning og músastigar í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka
Á safninu byrjar jólagleðin ávallt með opnun jólasýningar og skáldastund í stássstofu Hússins. Sunnudaginn 2. desember býður safnið gesti velkomna. Á jólasýningunni skarta gömlu jólatrén sínu fegursta, músastigasmiðja verður í Kirkjubæ og í stássstofu má hlýða á rithöfunda lesa úr nýjum verkum sínum. Þetta árið koma fram: Bjarni M. Bjarnason með skáldsöguna Læknishúsið, Gerður Kristný með ljóðabókinni Sálumessa, Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sem ritaði sögu Skúla fógeta, Lilja Sigurðardóttir með glæpasöguna Svik og Guðmundur Brynjólfsson með glæpasöguna Eitraða barnið. Þarna fá gestir brot af ólíkum skáldskap. Eyrarbakki er sögusviðið í bókum Guðmundar og Bjarna. Lilja hefur getið sér gott orð sem spennusagnarhöfundur og Þórunn þekkt fyrir að tvinna listlega saman sagnfræði og skáldskap. Gerður Kristný er svo eitt okkar fremsta ljóðskáld. Það verður enginn bókaunnandi svikinn af skáldastund í Húsinu. Opin vinnusmiðja verður í litla alþýðuhúsinu Kirkjubæ og er ætlunin að fylla litla kotið af músastiga. Aðventukaffi er á boðstólum, allir velkomnir og frír aðgangur. Jólasýningin er opin sem og safnið allt frá kl. 13-17 en upplestur rithöfunda hefst kl. 16.00
Byggðasafnið verður með fjölbreytta jóladagskrá og séropnunum á aðventu þar sem verður opið þrjá sunnudaga fyrir jól og einn laugardag. Uppbyggingasjóður Suðurlands styrkir dagskrána. Nánari dagskrá má sjá á vefsíðu safnsins www.husid.com og á Facebook „Húsið á Eyrarbakka – Byggðasafn Árnesinga“. Ókeypis aðgangur. Verið velkomin.