Yfir beljandi fljót
Yfir beljandi fljót

Opnuð hefur verið sýningin „Yfir beljandi fljót“ í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin fjallar um sögu fólks sem ferðaðist gangandi og ríðandi á tímum þegar ár og vötn klufu sveitir Árnessýslu. Fólk ferðaðist um rótgrónar þjóðleiðir og fór yfir árnar í ferjum eða á vöðum. Oft þurfti að fara langa króka til að komast á milli staða þar sem ófært var yfir ár, vötn og mýrar. Að vetri var oft hægt að fara yfir á ís. Á sýningunni er varpað ljósi á ferðmáta fólks, ferðaútbúnað, skófatnað, reiðtygi og síðan en ekki síst sjá gestir sögubrot og sagnir sem tilheyrðu þessum tíma. Margar frásagnir hverfast eðlilega um árnar í sýslunni sem voru miklir farartálmar eins og Ölfusá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót og svo Þjórsá á sýslumörkum.
Ljósmyndir sem prýða sýninguna eru nokkrar úr safneign en flestar eru fengnar úr öðrum söfnum enda mikið fágæti.
Rétt fyrir aldamótin 1900 voru stærstu árnar, Ölfusá og Þjórsá, brúaðar og var það bylting sem kollvarpaði samgönguháttum og til langs tíma olli breytingum á samfélaginu í takt við allar aðrar breytingar til nútímahátta. En eftir lifa margar ótrúlegar sögur af ferðalögum fólks sem barðist oft við óblíða náttúru og krefjandi aðstæður.
Sýningin og rannsókn á efninu var alfarið unnin af fagmenntuðu starfsfólki Byggðasafns Árnesinga. Verkefnið fékk styrk frá Safnaráði. Sýningin var opnuð 20. júní og stendur til septemberloka auk þess sem hún lifir næsta sumar í breyttri mynd. Byggðasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 10-17 til septemberloka.
Ljósmynd: Bændur úr Skaftafellssýslu á leið frá Eyrarbakka með timbur til húsasmíða, ljósmynd frá 1890. (Oline Lefolii/Byggðasafn Árnesinga)