Vitus Bering í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka

Vitus Bering í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka

01/04/2015

vv Sejer Andersen i rollen som Vitus BeringDanski leikarinn Sejer Andersen flytur einleikinn Vitus Bering í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka laugardaginn 11. apríl kl. 15 og sunnudaginn 12. apríl kl. 17. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Sejer Andersen er vel kunnur leikari í Danmörku. Hann rekur Vitus Bering teatret í Kaupmannahöfn og hefur farið með þennan einleik um víða veröld. Einleikurinn er eftir Gregers Dirckinck-Homfeld en tónlistina samdi Bo Holten.

Vitus Bering var danskur landkönnuður sem líkja mætti við Kristófer Kólumbus. Hann var fæddur í Horsens 1681 og dáinn á Beringseyju í Kyrrahafinu árið 1741. Hann var siglingafræðingur og höfuðsmaður í rússneska sjóhernum. Hann fann Beringssund 1728, kannaði Aljútaeyjar og sigldi meðfram strönd Alaska 1741 og lagði þannig grunninn að landnámi Rússa þar. Við Vitus Bering eru Beringssund og Beringshaf kennd.

Eins og áður segir þá verður einleikurinn fluttur í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Sejer Andersen verður í áraskipinu Farsæl og flytur þaðan leikritið um landkönnuðinn danska. Einleikurinn verður fluttur á dönsku en íslenskum texta varpað á vegg.