Sumarið gengið í garð

Sumarið gengið í garð

01/05/2025

Sumaropnun hefur tekið gildi. Klukkan 10 í morgun 1. maí  á baráttudegi verkalýðsins var safnið opnað og tekur Þórey Eyþórsdóttir sem er á ljósmyndinni í dyragættinni vel á móti gestum í dag.

Þann 1. maí til 30. september er opið alla daga vikunnar frá 10 til 17 í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum og Kirkjubæ. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka opnar 15. maí. Hópar geta skoðað söfnin á öðrum tímum og skal hafa samband við safnið í síma 483 1504 eða 483 1082.

Í borðstofu Hússins á Eyrarbakka er sýningin „Endur(á)lit unga fólksins“ með grípandi áróðursspjöldum nemenda í grafískri hönnun í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Sumarsýning Byggðasafns Árnesinga opnar í borðstofu Hússins um miðjan júní. „Yfir beljandi fljót“ nefnist hún og fjallar um samgöngur í Árnessýslu fyrir gerð brúa og nýs vegakerfis.

Í sal Varðveisluhúss Byggðasafns Árnesinga að Búðarstíg 22 er þessa dagana samsýning MÝKÓ hópsins, átta kvenna sem öll eru nemendur í Myndlistarskóla Kópvogs og nefnist sýningin UPPSPRETTA. Sýningin er opin í dag 1. maí og næstu helgi , 3. og 4. maí kl. 14 til 17.

Ýmsir viðburðir og þátttaka í Jónsmessuhátíð Eyrarbakka verður meðal þess sem í boði verða í sumar. Rjómabúið á Baugsstöðum verður opið um helgar í júlí og ágúst og eftir samkomulagi. Stefnt er að því að hafa almúgahúsið Eyri opið yfir hásumarið í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Verið velkomin í söfnin á Eyrarbakka í sumar!