Sellótónleikar á þrjátíu ára afmæli

Sellótónleikar á þrjátíu ára afmæli

28/07/2025

 

Sunnudaginn 3. ágúst kl. 15 kemur Katrín Birna Sigurðardóttir, mastersnemi í sellóleik, í stássstofu Hússins á Eyrarbakka og heldur sellótónleika með fjölbreyttri dagskrá við allra hæfi. Stássstofa Hússins með sínum töfrum hefur verið uppspretta tónmenningar í gegnum tíðina og margar frásagnir hafa varðveist um tónlist í þessu aldna faktorssetri. Nú er komið að Katrínu Birnu og kjörið tækifæri til að njóta fagrar tónlistar í sögulegu umhverfi. Tónleikarnir eru hluti af verkefninu Selló á ferð um Suðurland og er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands. Ókeypis er á tónleikana sem standa yfir í 30-40 mínútur. Allir eru velkomnir.

Þessi dagur er merkur í sögu Byggðasafns Árnesinga en á sunnudaginn eru þrjátíu ár liðin síðan Byggðasafn Árnesinga opnaði Húsið fyrir almenningi með nýrri grunnsýningu. Lýður Pálsson safnstjóri mun minnast þessara tímamóta í upphafi tónleikanna með stuttri tölu.